Matarauður Íslands kallar eftir hugmyndum frá neytendum og framleiðendum, ungum sem öldnum, um hvernig skapa megi verðmæti úr vannýtum matvælum. Þær hugmyndir verða síðan nýttar af Hótel- og matvælaskólanum við gerð nýrra rétta úr vannýttum hráefnum á vorönn 2020.
Þrjár hugmyndir valdar og þróaðar
Matarauður Íslands er verkefni sem heyrir undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og meðal verkefna þess er að draga fram matarmenningu og ýta undir verðmætasköpun í tengslum við matarauð Íslendinga. Leiðarljós verkefnisins er sjálfbær matvælastefna í anda heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna sem leggja meðal annars áherslu á ábyrga neyslu með minni matarsóun.
Samkvæmt heimasíðu verkefnisins er mikil gróska í nýsköpun á sviði matvæla á Íslandi og á síðustu árum hefur nýtni orðið meira áberandi meðal frumkvöðla. Matvæli, drykkir, fæðubótarefni, snyrtivörur, plástrar og margt fleira eru afrakstur frumkvöðulsstarfs innan matvælageirans.
„Við Íslendingar búum yfir frumkvöðlahjarta sem nýta þarf betur til að skapa verðmæti úr vannýttum matvælum og gjöfulli náttúru. Þannig má sporna gegn matarsóun og ýta undir viðskiptatækifæri sem ratar upp í munn og niður í maga,“ segir í tilkynningunni verkefnisins.
Hægt verður að senda inn hugmyndir um vannýtt matvæli á heimasíðu verkefnisins til 1. janúar næstkomandi.
Kennarar og nemendur við Hótel- og matvælaskólann munu síðan velja þrjár innsendar hugmyndir um vannýtt hráefni og bjóða höfundum þeirra í spjall um mögulegar útfærslur ásamt viðtali við vöruhönnuð.
Rannsaka matarsóun Íslendinga
Vestræn lönd sóa gífurlegu magni matvæla á hverju ári sem hefðu hugsanlega geta brauðfætt milljónir manna. Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna metur það sem svo að 1,3 milljón tonn af matvælum fari í ruslið á hverju ári eða um þriðjungur þess matar sem keyptur fer beint í ruslið.
Með því að draga úr matarsóun má nýta betur auðlindir, spara fé og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Á vefsíðunni matarsóun.is kemur fram að samkvæmt skýrslu Matvæla– og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna er áætlað að um 3.300.000 Gg af losun koldíoxíðígilda í heiminum á ári megi rekja til matarsóunar.
Um þessar mundir stendur Umhverfisstofnun fyrir ítarlegri rannsókn á umfangi matarsóunar á Íslandi. Þar sem kannað er hversu mikill matur fer til spillis á íslenskum heimilum og hjá fyrirtækjum. Niðurstöður rannsóknarinnar verða síðan lagðar til grundvallar vinnu starfshóps sem stýrt verður af umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og mun hafa það hlutverk að koma með frekari tillögur að aðgerðum sem ætlað er að draga úr matarsóun og þar með úr losun gróðurhúsalofttegunda.