Flest bendir til þess að losun Íslands á árunum 2013 til 2020 verði meiri en skuldbindingar Kyoto-bókunarinnar kveða á um. Ísland þarf því að gera upp skuldbindingar sínar með kaupum á svokölluðum losunarheimildum. Áætlaður kostnaður vegna þessa eru nokkur hundruð milljónir króna.
Þetta kemur fram í svari umhverfis-og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni, þingmanns Pírata, um losun gróðurhúsalofttegunda frá ökutækjum og alþjóðlegar skuldbindingar.
Ísland þarf að borga til að standast skuldbindingar
Ísland fullgilti Kyoto-bókunina þann 23. maí 2002 en hún er bókun við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar. Ríki geta gert þrennt til að standa við skuldbindingar sínar samkvæmt Kyoto-bókuninni en það er að draga úr losun, binda kolefni úr andrúmslofti og kaupa heimildir ef upp á vantar til að standast skuldbindingar.
Ísland þarf ekki að gera upp skuldbindingar sínar vegna losunar Íslands á árunum 2013 til 2020 fyrr en árið 2023 en í svari umhverfisráðherra kemur fram að flest bendi til þess að Ísland þurfi að kaupa heimildir til að standast skuldbindingar sínar. Mögulegt er að kaupa heimildir beint af ríkjum sem hafa losað minna en skuldbindingar þeirra kveða á um eða einingar sem verða til vegna loftslagsvænna verkefna, einkum í þróunarríkjum.
Ráðherra segir að ekki sé hægt að segja nákvæmlega til um hver kostnaður Íslands gæti orðið því verð á einingum/heimildum sé breytilegt og ekki liggi fyrir hver heildarlosun Íslands verði á tímabilinu.
Ráðuneytið áætlar að miðað við núverandi verðlag gæti heildarupphæðin hlaupið á nokkur hundruð milljónum króna fyrir tímabilið í heild. Það mat er þó sett fram með fyrirvara.