Sjómannasamband Íslands og VM - félag vélstjóra og málmtæknimanna segjast ekki geta undir neinum kringumstæðum nema að einu leiti tekið undir nauðsyn þess að afnema stimpilgjöld af fiskiskipum. Undantekningin sé sú þegar skip komi i fyrsta skipti á íslenska skipaskrá.
Í umsögn þeirra segir einnig að í ljósi þess sem fram kemur í „Samherjaskjölunum“ svokölluðu ætti Alþingi að fara sér afar hægt í þessum efnum.
Áður hafði félag skipstjórnarmanna skilað sambærilegri umsögn og sagt að ákvæði laganna um stimpilgjöld væri sá þröskuldur sem komið hefði í veg fyrir stóraukna hreyfingu skipa inn og út af íslenskri skipaskrá undir erlent flagg og til baka.“
SFS barist lengi fyrir afnáminu
Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) hafa einnig sent inn umsögn, sem birt var á vef Alþingis í gær. Þau taka undir mikilvægi þess að afnema stimpilgjald af skjölum varðandi eignayfirfærslu á skipum. „Mikilvægt er að heimatilbúnar hindranir dragi ekki mátt úr íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum sem eiga í harðri samkeppni á alþjóðlegum markaði. Stjórnvöld eru hvött til þess að gæta að samkeppnishæfni íslenskra útflutningsfyrirtækja því að í þeim efnum er hægara að styðja en reisa.“
SFS hafa barist hart fyrir því að gjaldið verði afnumið undanfarin misseri, meðal annars í umsögn um fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp fyrir árið 2020. Þar sögðu þau aðgerðina nauðsynlega og löngu tímabæra.
Í umsögninni sagði meðal annars að það væri mat samtakanna að mikilvægt sé að átta sig á því að skip séu ekkert annað en atvinnutæki þeirra sem þau nota. „Með því að fara fram á háa greiðslu stimpilgjalda vegna skipa sem eru yfir 5 brúttótonnum á sér stað mismunun eftir atvinnugreinum, enda ljóst að aðrir lögaðilar sem notast þurfa við tæki á borð við flugvélar, rútur, vinnuvélar eða önnur stórvirk atvinnutæki er ekki skylt að greiða stimpilgjöld.[...] Jafnframt ber að nefna að fyrirtæki í útgerð sem hafa áhuga á að endurnýja sinn skipakost, þurfa ekki aðeins að greiða 1,6% stimpilgjald heldur verður það 3,2% af verðmæti viðskiptanna sem fer í stimpilgjöld. Þannig þurfa fyrirtækin jafnan að greiða bæði gjaldið við sölu eldra skips og síðan aftur við kaup á nýju skipi og því verður álagningin í raun tvöföld við endurnýjun skipastóls.“