Félags- og barnamálaráðherra stefnir á að leggja fram frumvarp um svokölluð hlutdeildarlán á yfirstandandi löggjafarþingi. Hlutdeildarlán felast í því að ríkið láni þeim sem þurfa fjármagn fyrir allt að 20 til 40 prósent af kaupverði fasteigna. Lánunum er ætlað að brúa bilið á milli lánsfjármögnunar hjá fjármálafyrirtækjum annars vegar og kaupverðs hins vegar.
Frá þessu er greint í nýrri skýrslu um stöðu og þróun húsnæðismála sem kynnt er á húsnæðisþingi í dag.
Lán til að bregðast við bresti á húsnæðismarkaði
Í byrjun árs voru 40 húsnæðistillögur kynntar af hálfu stjórnvalda sem liður í því að liðka fyrir kjarasamningsviðræðum. Tillögunum var einkum ætlað að bæta stöðu ungs fólks og tekju- og eignalágra sem standa hvað höllustum fæti á húsnæðismarkaði. Þær fela meðal annars í sér aukin framlög til uppbyggingar almenna íbúðakerfisins, bætta réttarstöðu leigjenda og innleiðingu hlutdeildarlána fyrir ungt fólk og tekjulága.
Hlutdeildarlán (e. equity loan) eru lán að enskri fyrirmynd sem felst í því að ríkið lánar ákveðnum kaupendahópum fjármagn fyrir hluta af eiginfjárþörf þeirra við fasteignakaup. Í skýrslunni segir að með hlutdeildarlánum sé verið að bregðast við ákveðnum bresti sem nú ríki á húsnæðismarkaði.
Lánið endurgreitt við sölu eða eftir 25 ár
Miðað er við að sett verði á laggirnar þrenns konar leiðir sem þjóna kaupendum sem ætla að kaupa sína fyrstu fasteign og fólki sem ekki hefur átt fasteign í fimm ár, tekjulágum og þeim sem búa á svæðum sem glíma við misvægi íbyggingarkostnaði og markaðsvirði fasteigna.
Hlutdeildarlánin gætu numið allt að 20 til 40 prósent af kaupverði fasteigna eftir tekjuhópum. Í öllum tilvikum væri miðað við ákveðið hámark fasteignaverðs og að umsækjandi sýni fram á að hann geti ekki keypt fasteign nema með stuðningi, að því er fram kemur í skýrslunni.
Lánið er svo endurgreitt við sölu eða að tuttugu og fimm árum liðnum en endurgreiðslan miðast við sama hlutfall af verðmæti eignarinnar og upphafleg lánveiting nam.
Allt að 1.000 lán á hverju ári
Samkvæmt skýrslunni takmarkast umfang hlutdeildarlána fyrst og fremst við afkastagetu byggingariðnaðarins enda muni áhersla vera á nýbyggt og nýlegt húsnæði.
Í skýrslunni segir að því megi gera ráð fyrir að árlegur fjöldi slíkra lána gæti verið á bilinu 350 til 1.000 talsins, allt eftir því hversu mikla áherslu byggingaraðilar leggja á íbúðir sem uppfylla kröfur um hlutdeildarlán.
Enn fremur kemur fram í skýrslunni að starfshópur sem félags- og barnamálaráðherra skipaði í byrjun nóvember hafi verið að störfum undanfarnar vikur til að koma þessari nálgun í lagabúning með frumvarpi, en gert er ráð fyrir að það verði lagt fram á yfirstandandi löggjafarþingi.