Sacky Shanghala, fyrrverandi dómsmálaráðherra Namibíu, og James Hatuikulipi, fyrrverandi stjórnarformaður namibísku ríkisútgerðarinnar Fishcor, voru handteknir í morgun í tengslum við rannsókn á spillingu og ætluðum mútugreiðslum í namibískum sjávarútvegi, meðal annars frá Samherja.
Frá þessu er greint á vef Namibian Sun en í dag fara fram þing- og forsetakosningar fram í Namibíu.
Í Samherjaskjölunum var opinberað að hópur sem inniheldur meðal annars Shangala og Hatuikulipi hefði fengið 1,4 milljarða króna hið minnsta greiddan frá Samherja á undanförnum árum. Auk þess hafi Bernhard Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Namibíu og ráðherra í Angóla fengið greiðslur.
Esau var jafnframt handtekinn í síðustu viku í tengslum við sömu rannsókn en honum var þó sleppt úr haldi stuttu síðar. Einnig var kaupsýslumaðurinn Ricardo Gustavo handtekinn en hann var samstarfsmaður Hatuikulipi.
Paulus Noa, framkvæmdastjóri ACC, spillingarlögreglunnar í Namibíu, hafði áður staðfest að frændi Hatuikulipi Tamson Hatuikulipi eða Fitty væri einnig leitað en hann er tengdasonur sjávarútvegsráðherrans fyrrverandi, eins og fram kom í Kveiki.
Héraðssaksóknari, Fjármálaeftirlitið og skattayfirvöld á Íslandi, eru öll að rannsaka viðskiptahætti Samherja í Namibíu. Þá eru yfirvöld í Noregi einnig að rannsaka ásakanir um skattsvik og peningaþvætti, í tengslum við viðskipti Samherja í Afríku.