Þeir einstaklingar sem handteknir voru í gær í tengslum við rannsókn á Samherjaskjölunum og spillingu er tengist úthlutun aflaheimilda í Namibíu eiga yfir höfði sér ákæru fyrir skipulagða glæpastarfsemi.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá spillingarlögreglunni þar í landi í dag.
Fram kom í fréttum fyrr í dag að sexmenningarnir Sacky Shanghala, Bernard Esau, James Hatuikulipi, Ricardo Gustavo, Tamson Hatuikulipi og Pius Mwatulelo hefðu mætt fyrir rétt en þeir voru eins og áður segir handteknir í gær.
Eins og fram hefur komið í fréttum þá voru sexmenningarnir handteknir í tengslum við rannsókn á Samherjaskjölunum og spillingu er tengist úthlutun aflaheimilda í Namibíu.
Samkvæmt fréttamiðli þar í landi, The Namibian, var máli þeirra frestað þangað til á morgun vegna umsóknar um lausn gegn tryggingu. Þeir munu sitja áfram í varðhaldi á meðan.