Á meðal þeirra greiðslna sem fóru út úr Kaupþingi eftir að Seðlabanki Íslands veitti bankanum neyðarlán upp á 500 milljónir evra 6. október 2008 voru greiðslur til Deutsche Bank. Þýski bankinn ákvað fyrir þremur árum að endurgreiða stóran hluta þeirrar upphæðar sem hann fékk greidda frá Kaupþingi síðustu vikurnar sem bankinn var starfandi.
Sú ákvörðun var tekin eftir að stöðugleikasamningarnir við íslenska ríkið voru undirritaðir og frágengnir og því rann greiðslan til Kaupþings ehf., félags utan um eftirstandandi eignir Kaupþings banka. Það félag greiddi stjórnendum og starfsmönnum sínum veglega bónusgreiðslu í fyrra vegna árangurs við innheimtu á útistandandi kröfum.
Héldu áfram að hagnast eftir nauðasamninga
Þótt stöðugleikasamningar hafi verið undirritaðir og höftum lyft voru enn tækifæri til staðar hérlendis fyrir skammtímasjóðina sem sóttust eftir ágóða á Íslandi. Nauðasamningarnir hleyptu þeim beint að eignum sínum. Það gerði þeim kleift að vinna enn betur úr þeim og auka hagnað sinn umtalsvert frá því sem áður var áætlað. Í nýlegri bók eftir Norðmanninn Svein Harald Øygard, sem var Seðlabankastjóri á Íslandi frá febrúarlokum 2009 og fram til 20. ágúst sama ár, sem ber heitið „Í víglínu íslenskra fjármála“, kom fram að hægt væri að auka þann hagnað um allt að 65 prósent.
Það útskýrir að þessir aðilar voru enn að bæta við nýjum sjóðum á Íslandi á árinu 2017, tæpum tveimur árum eftir að nauðasamningar voru handsalaðir. Í bókinni er rætt við umsjónarmann eins sjóðanna sem vildi ekki láta nafn síns getið né fyrir hvaða sjóð hann var að starfa. Hann segir þar: „Við keyptum svolítið síðla árs 2011 og sóttum í okkur veðrið í ársbyrjun 2012[...]Árið 2012 keyptum við í nafni aðalsjóðsins okkar. Árið 2013, stofnuðum við sjóð þar sem fjárfestar gátu fjárfest beint í þrotabúum Glitnis og Kaupþings. Árið 2016 bættist við sjóður sem átti hluta af ábatanum af uppgjörinu. Árið 2017 bættum við enn einum sjóði við, hann átti einn nýju bankanna að hluta.“
Deutsche Bank endurgreiddi hluta neyðarlánsins
Dæmi um það hvernig var hægt að vinna úr eignum er málarekstur sem Kaupþing stóð í gagnvart þýska stórbankanum Deutsche bank vegna fjármuna höfðu runnið frá Kaupþingi til Deutsche Bank síðustu vikurnar fyrir fall íslenska bankans vegna hins svokallaða CLN-strúktúrs. Alls nam heildarupphæð þeirra fjármuna sem fóru frá Kaupþingi til þýska bankans vegna þessa 510 milljónum evra. Ekki hafði verið reiknað með að hægt yrði að endurheimta féð, sem rann frá Kaupþingi á tímabilinu 22. september til 7. október 2008. Síðustu greiðslurnar fóru því til Deutsche Bank eftir að Seðlabanki Íslands hafði veitt Kaupþingi neyðarlán, og tveimur dögum áður en að bankinn fór á hausinn.
Nánast níu árum upp á dag frá því að Kaupþing féll, eða snemma í október 2016, náðist skyndilega samkomulag, sem síðar var formgert í desember sama ár þegar dómstólar staðfestu það. Deutsche Bank vildi greiða stóran hluta þeirrar upphæðar sem Kaupþing hafði beint og óbeint falast eftir að fá greidda, eða 425 milljónir evra.
Því fékk Kaupþing stóran hluta neyðarlánsins endurgreiddan frá Deutsche Bank. Sú upphæð rann þó ekki til Seðlabanka Íslands, heldur til eigenda Kaupþings ehf., og að mestu áðurnefndra skammtímasjóða.
Fámennur hópur fékk svimandi háa bónusa fyrir innheimtu
Greint var frá því fyrir þremur árum síðan að um 20 manna hópur lykilstarfsmanna Kaupþings gæti fengið allt að 1,5 milljarða króna til að skipta á milli sín ef hámörkun á virði eigna Kaupþings myndi nást.
Kjarninn greindi frá því í október síðastliðnum að greiðslur til starfsmanna félagsins, sem voru 17 talsins, hefðu í heild numið rúmlega 3,5 milljörðum króna á árinu 2018 og hækkuðu um 900 milljónir króna þrátt fyrir að starfsfólki hefði fækkað. Frá árinu 2016 hafa greiðslur til starfsfólks Kaupþings aukist um 1,9 milljarð króna en starfsfólkinu sjálfu fækkað úr 30 í 17.
Stjórn og forstjóri Kaupþings ehf., félags utan um eftirstandandi eignir þrotabús hins fallna banka Kaupþings, voru samtals með 1.216 milljónir króna í laun í fyrra. Í stjórn Kaupþings sitja Allan Jeffrey Carr, Paul Copley, Óttar Pálsson og Piergiorgio Lo Greco. Copley er einnig forstjóri Kaupþing. Það fækkaði um einn í stjórn félagsins á milli ára, en Benedikt Gíslason hætti í henni í ágúst 2018 og tók þess í stað sæti í stjórn Arion banka, sem þá var að að stóru leyti enn í eigu Kaupþings. Benedikt var svo ráðinn bankastjóri Arion banka í sumar. Því verður að gera ráð fyrir að greiðslur til Benedikts fram að þeim tíma sem hann hætti hjá Kaupþingi teljist með í heildarupphæð launagreiðslna til stjórnar.
Launagreiðslur til stjórnar jukust úr 544 milljónum króna í 1.216 milljónir króna á árinu 2018, eða um 672 milljónir króna.
Eini Íslendingurinn sem var eftir í stjórn Kaupþings, lögmaðurinn Óttar Pálsson, hefur setið þar frá árinu 2016 að ósk helstu eigenda Kaupþings, sem eru bandarískir vogunar- og áhættusjóðir. Hann starfaði áður sem ráðgjafi fyrir þá.