Sparisjóðurinn hættir að þjónusta viðskiptavini sína með erlendar millifærslur í desember næstkomandi. Kvika banki hefur hingað til séð um erlenda greiðslumiðlun fyrir sparisjóðina en sagði nýlega upp samstarfinu vegna kröfu mótaðila bankans erlendis. Sparisjóðurinn leitar nú að nýrri langtímalausn.
Þetta staðfestir Árni Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sparisjóða, í samtali við Kjarnann. Hann segir að leitað hafi verið annarra skammtímalausna eftir að þjónustuaðili þeirra, Kvika banki, sagði upp samstarfinu en því miður hafi það ekki gengið eftir.
Viðskiptavinir sparisjóðanna munu því í byrjun desember ekki geta sent greiðslur úr landi og um miðjan desember ekki tekið á móti erlendum greiðslum. Árni segir að Sparisjóðurinn leiti nú að öðrum langtímaleiðum. Hann ítrekar þó að þetta hafi ekki áhrif á notkun greiðslukorta sjóðanna, hvorki innanlands né erlendis.
Alls starfa fjórir sparisjóðir undir merkjum Sparisjóðsins hér á landi. Sparisjóður Austurlands, Sparisjóður S-Þingeyinga, Sparisjóður Strandamanna og Sparisjóður Höfðhverfinga.
Segir þetta ekki tengjast veru Íslands á gráum lista
Magnús Ingi Einarsson, framkvæmdastjóri bankasviðs innan Kviku banka, segir í samtali við Kjarnann að bankinn hafi þurft að segja upp samstarfinu við sparisjóðina vegna breytts fyrirkomulags evru-greiðslna í Evrópu eða svokallaðra SEPA-greiðslna. Undir því fyrirkomulagi sé ekki heimilt að framkvæma greiðslur fyrir óbeinan aðila.
Magnús Ingi segir að fram að þessu hafi Kvika fengið undanþágu hjá þeim erlenda banka sem þeir eru í samstarfi við fyrir þjónustu sína við sparisjóðina en nú sé komið að þeim tímapunkti að það ekki sé lengur hægt. Hann segir að reynt hafi verið að finna aðra lausn á þessu en að það hafi ekki gengið eftir og því miður hafi þetta verið niðurstaðan.
Jafnframt segir Magnús Ingi að sparisjóðirnir séu einu aðilarnir, sem Kvika banki þjónustar, sem þessi breyting muni bitna á. Aðspurður segir hann að þetta tengist ekki veru Íslands á gráum lista FATF eða nýrra reglugerða vegna peningaþvættis.