Evrópuþingið lýsti í gær yfir neyðarástandi í loftslagsmálum. Yfirlýsingin er sögð vera táknræn en með henni vonast þingmennirnir til að þrýsta enn frekar á framkvæmdararm Evrópusambandsins að taka til róttækra aðgerða í loftslagsmálum. Frá þessu er greint á vef Washington Post.
Alls greiddu 429 þingmenn Evrópuþingsins atkvæði með yfirlýsingu en 225 greiddu atkvæði gegn henni og nítján sátu hjá. Þessi yfirlýsing um neyðarástand er sú fyrsta sem kemur frá samtökum ríkja en á annan tug ríkja sem og borga hafa nú þegar lýst yfir neyðarástandi í loftslagsmálum. Ísland er hins vegar ekki á meðal þeirra.
Ursula von der Leyen, sem tekur við embætti forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins á sunnudaginn, hefur tilkynnt að loftslagsmál verði efst á baugi í embættistíð hennar. Haft er eftir henni í Washington Post að ástandið í loftslagsmálum sé orðið að krísu, tilvistarkrísu.
„Hvernig getur hún ekki verið tilvistarkrísa þegar við sjáum Feneyjar undir vatni, portúgalska skóga brenna eða uppskeru í Litháen minnka um helming vegna þurrka?“ spyr Von der Leyen en hún mun jafnframt leggja leið sína á 25. loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem hefst í Madrid á mánudaginn.