Beiðni um lausn gegn tryggingu sexmenninganna Sacky Shanghala, Bernard Esau, James Hatuikulipi, Ricardo Gustavo, Tamson Hatuikulipi og Pius Mwatulelo verður ekki tekin fyrir í dag og hefur málinu verið frestað fram á næstkomandi mánudag, samkvæmt fréttamiðlinum The Namibian.
Sami miðill greindi frá því á Facebook-síðu sinni að lögmenn Bernhardt Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Namibíu, og Sacky Shanghala, fyrrverandi dómsmálaráðherra landsins, hefðu verið handteknir í Namibíu í morgun.
Þá kom fram að lögmenn þeirra, þeir Mike Hellens og Dawie Joubert frá Suður-Afríku, væru ekki með atvinnuleyfi í Namibíu. Ástæða frestunar beiðni um lausn gegn tryggingu er, samkvæmt miðlinum, vegna þessa skorts á atvinnuleyfi.
Eins og fram hefur komið í fréttum þá voru sexmenningarnir handteknir í vikunni í tengslum við rannsókn á Samherjaskjölunum og spillingu er tengist úthlutun aflaheimilda í Namibíu.
Aðilarnir sem um ræðir eru Sacky Shanghala, fyrrverandi dómsmálaráðherra, James Hatuikulipi, sem hætti sem stjórnarformaður namibísku ríkisútgerðarinnar Fishcor í síðustu viku, Bernhardt Esau, sem sagði af sér sem sjávarútvegsráðherra á sunnudaginn, Tamson 'Fitty' Hatuikulipi, tengdasonur Esau sem jafnframt er frændi James Hatuikulipi, Ricardo Gustavo, samstarfsmaður hans og Pius 'Taxa' Mwatelulo, sem einnig tengist James Hatuikulipi fjölskylduböndum.
The bail application of former ministers Bernhard Esau and Sacky Shanghala and four co-accused in the 'Fishrot' scandal...
Posted by The Namibian on Friday, November 29, 2019