Haraldur Johannessen ætlar að hætta sem ríkislögreglustjóri um áramót. Hann hefur óskað eftir því við Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra að fá að láta af embætti frá og með næstu áramótum. Haraldur sendi samstarfsfélögum sínum bréf þess efnis nú í morgun. Frá þessu er greint á RÚV í dag.
Samkvæmt frétt RÚV óskaði Haraldur jafnframt eftir því að hann tæki að sér sérstaka ráðgjöf við ráðherra á sviði löggæslumála eftir að hann hættir sem lögreglustjóri, sem meðal annars lýti að framtíðarskipulagi löggæslunnar.
„Haraldur segist stíga sáttur frá borði eftir að hafa gegnt þessu ábyrgðarmikla starfi í 22 ár. Nú þegar boðaðar eru breytingar á yfirstjórn lögreglumála í landinu telji hann rétt að hleypa að nýju fólki og segir að það sé sér ljúft og skylt að vera ráðherra í framhaldinu til ráðgjafar um framtíðarskipulag löggæslunnar,“ segir í fréttinni.
Í september síðastliðnum lýstu átta af níu lögreglustjórum landsins og formannafundur Landssambands lögreglumanna yfir vantrausti á Harald. Þeir báru viðtal sem hann fór við í Morgunblaðinu fyrr í þeim mánuði fyrir sig sem lykilástæðu þeirrar ákvörðunar.
Í viðtalinu sagði Haraldur meðal annars að verið væri að reyna að hrekja hann úr embætti með því að dreifa vísvitandi rangfærslum og rógburði um hann. Þeir sem væru að gera það væru lögreglumenn sem teldu sig eiga harma að hefna gegn honum, meðal annars vegna þess að hann hafi gripið inn í vegna starfshátta eða framkomu þeirra eða vegna þess að þeir hafi ekki fengið stöður sem þeir sóttust eftir. Ef til starfsloka hans kæmi myndi það kalla á enn ítarlegri umfjöllun af hans hálfu um valdabaráttuna bak við tjöldin.
Dómsmálaráðherra hefur boðað til blaðamannafundar í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu í Reykjavík í dag klukkan 13:00 þar sem hún ætlar að fjalla um málefni lögreglunnar.