Þorsteinn Víglundsson þingmaður Viðreisnar hefur lagt fram frumvarp, auk sex annarra þingmanna, þess efnis að fyrirtæki sem tekið hafa jafnréttismál föstum tökum, þar á meðal með betra jafnvægi milli kynja í stjórnunarstöðum og yfirlýstri jafnréttisstefnu, greiði lægra tryggingagjald.
Þingmennirnir telja að með því skapist hvati til að fjölga konum í stjórnunarstöðum sem síðan dragi úr vægi almannatrygginga í lífeyrisgreiðslum og úr óleiðréttum launamun.
Til þess fallið að draga úr óleiðréttum launamun
Í greinargerð frumvarpsins segir að efnisleg rök séu fyrir því að fyrirtæki sem náð hafa betra jafnvægi milli kynja í stjórnunarstöðum greiði lægra tryggingagjald.
Konur reiða sig í ríkari mæli á lífeyrisgreiðslur almannatryggingar en karlar. Samkvæmt greinargerðinni stafar það af umtalsverðum launamun kynjanna, en óleiðréttur launamunur þeirra mælist nú í kringum 15 prósent og hefur lítið breyst á undanförnum árum, auk þess sem atvinnuþátttaka kvenna er minni en karla.
Því sé aukið jafnvægi milli kynja í stjórnunarstöðum til þess fallið að draga úr óleiðréttum launamun kynjanna og þar með minnka vægi almannatrygginga í lífeyrisgreiðslum að starfsferli loknum. Auk þess segir í greinargerðinni að gangi frumvarpið eftir dragi það úr kynbundinni verkaskiptingu vinnumarkaði sem ýti undir mun hærra hlutfall kvenna á örorkuskrá.
Langt í land
Í greinargerðinni er jafnframt fjallað um hlutfall í stjórnum íslenskra fyrirtækja. Í fyrra voru konur 33,5 prósent stjórnarmanna í fyrirtækjum með 50 launþega eða fleiri en þetta er í fyrsta sinn sem hlutfall mælist hærra en þriðjungur. Hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja með færri en 50 launþega stendur aftur á móti nánast í stað á milli ára og var 25,9 prósent árið 2018.
Staðan meðal millistjórnenda er ögn skárri en þó hafa aðeins 30 prósent íslenskra fyrirtækja jöfn kynjahlutföll í millistjórnendastöðum og í um 60 prósent íslenskra fyrirtækja eru millistjórnendur mestmegnis eða nær eingöngu karlmenn.
Félög í ríkiseigu mælast með jafnari kynjahlutföll en félög í einkaeigu en þó eru konur aðeins 29 prósent stjórnarformanna, 38 prósent forstjóra og 39 prósent framkvæmdastjórnenda í félögum í ríkiseigu.
„Þessar tölur sýna að þrátt fyrir gott gengi Íslendinga í jafnréttisbaráttunni þá er enn verk að vinna,“ segir í greinargerðinni og jafnframt er bent á að rannsóknir hafi sýnt að til þess að konur eigi möguleika á stjórnendastöðum í efsta lagi fyrirtækis þá er líklegast að þær fái slíkar stöður eftir að hafa gegnt millistjórnendastöðu fyrir. Því telja flutningsmenn frumvarpsins mikilvægt að auka hvatann til að hafa sem jöfnust kynjahlutföll í öllum stigum fyrirtækisins.
Allt að 8 milljarða króna breyting
Þingmennirnir leggja því til að almennt tryggingagjald fyrirtækja sem uppfylla skilyrði um hlutfall stjórnenda af hverju kyni sé ekki hærra en 60 prósent, hafa hlotið jafnlaunavottun og sett sér jafnréttisáætlun verði lækkað um 0,5 prósentustig eða úr 4,9 prósent í 4,4 prósent.
Skilyrði um jafnt hlutfall í stjórnum tekur þó aðeins til fyrirtækja sem hafa fleiri en fjóra stjórnendur og skilyrðið um jafnlaunavottun gildir að auki aðeins um félög sem hafa 25 starfsmenn eða fleiri. Er því ljóst að kröfur sem smærri atvinnurekendur þurfa að uppfylla til að hljóta lækkun tryggingagjalds eru minni en kröfurnar sem stærri fyrirtæki þurfa að uppfylla.
Reiknað er með að breytingin sem frumvarpið felur í sér hafi áhrif á tekjur ríkissjóðs til lækkunar um 8 milljarða króna á ársgrundvelli ef allir atvinnurekendur uppfylltu þau skilyrði sem sett eru til að njóta lækkunar tryggingagjalds. Þó segir í greinargerð frumvarpsins að gera megi ráð fyrir að það taki nokkur ár fyrir áhrif breytinganna að koma fram að fullu.