Frá 1. desember á síðasta ári fjölgaði í Siðmennt um 655 manns eða um 23,3 prósent. Þetta er mesta fjölgun í trú- og lífsskoðunarfélag á árinu, samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá.
Á vefsíðu félagsins kemur fram að Siðmennt – félag siðrænna húmanista á Íslandi hafi verið stofnað árið 1990 í kringum borgaralega fermingu. Félagið hafi síðan þróast fljótt í að vera fullgilt húmanískt félag með aðild að alþjóðasamtökum húmanista (IHEU). „Félagið er veraldlegt lífsskoðunarfélag og hefur að viðfangsefni þau viðhorf og lífsgildi sem eru persónulega mikilvæg og náin hverjum einstaklingi í leit að tilgangi og hamingju í lífinu,“ segir á síðu félagsins.
Aukning var einnig í kaþólsku kirkjunni um 620 manns sem er fjölgun um 4,4 prósent. Skráningar í kaþólsku kirkjuna hafa nærri fjórfaldast á síðustu 20 árum og í dag eru rúmlega 14 þúsund manns skráðir í kirkjuna.
Heldur áfram að fækka í þjóðkirkjunni – Mest hlutfallsleg fækkun þó í zuism
Alls hefur skráðum í þjóðkirkjuna fækkað um 1.518 manns á sama tímabili. Nú eru 231.154 einstaklingar skráðir í þjóðkirkjuna, samkvæmt Þjóðskrá. Þá kemur jafnframt fram að fækkun hafi orðið í 22 trú- og lífsskoðunarfélögum og að mest hlutfallsleg fækkun hafi verið í zuism eða um 23 prósent.
Þá fjölgi í ótilgreindum skráningum og þeim sem standa utan trú- og lífsskoðunarfélögum. Alls voru 26.023 einstaklingar skráðir utan trú- og lífsskoðunarfélaga þann 1. desember síðastliðinn og fjölgaði þeim um 1.260 frá 1. desember árinu áður eða um 5,1 prósent. Alls eru 7,2 prósent landsmanna utan trú- og lífsskoðunarfélaga.
Alls eru 52.060 einstaklingar sem eru búsettir hér á landi með ótilgreinda skráningu og hefur þeim fjölgað um 5.748 frá 1. desember 2018 eða um 12,4 prósent.