Alþingi samþykkti í gær breytingar ríkisstjórnarinnar á tekjuskattskerfinu. Með breytingunum verður innleitt þriðja skattþrepið sem tryggja á þeim tekjulægstu 120 þúsund króna skattalækkun árið 2021. Ávinningurinn af lækkuninni á jafnframt að skila sér til allra tekjutíunda en þó mest til þeirra sem lægstar hafa tekjurnar.
Með samþykkt frumvarpsins er ein af grundvallarforsendum lífskjarasamninganna efnd og samkvæmt leiðtogum ríkisstjórnarinnar er þessi breyting ein af stóru málum kjörtímabilsins.
Hluti lífskjarasamninganna efndur
Þegar skrifað var undir hina svokölluðu lífskjarasamninga í apríl var ein meginforsenda þess að verkalýðsfélög, sem fara með samningsumboð fyrir um helming íslensks vinnumarkaðar, skrifuðu undir sú að ríkisstjórnin lagði fram langan loforðalista um aðgerðir sem hún ætlaði að grípa til svo hægt yrði að ná saman um hóflegar launahækkanir. Kostnaður vegna aðgerðanna var metinn á um 80 milljarða króna á samningstímabilinu.
Ein þeirra aðgerða eru kerfisbreytingar á tekjuskattkerfi einstaklinga með tilheyrandi skattalækkun. Stjórnvöld boðuðu að bæta við þriðja skattþrepinu sem tryggja ætti lægstu launahópunum töluverða skattalækkun á mánuði. Fjármálaráðherra lagði síðan fram frumvarp um breytingar á lögum um tekjuskatt í september og var frumvarpið líkt og áður segir samþykkt á Alþingi í gær.
Efsta þrepið helst óbreytt
Breytingarnar felast í því að tekjuskattur verður lækkaður í tveimur áföngum. Annars vegar þann 1. janúar 2020 og hins vegar þann 1. janúar 2021. Innleitt verður nýtt lægra grunnþrep, sem verður 20,6 prósent á næsti ári og lækkar í 17 prósent árið 2021 eða 5,5 prósentustigum lægra en núverandi grunnþrep.
Í kjölfar breytinganna munu skattgreiðslur fólks við fyrstu þrepamörkin lækka um 42 þúsund krónur á næsta ári, en þá hefur verið tekið tillit til lækkunar persónuafsláttar sem beitt er í samspili við upptöku nýs lægsta þreps í skattkerfinu. Þegar breytingin verður hins vegar komin að fullu fram þá nemur lækkunin á tekjuskatti þessa hóps rúmlega 120 þúsund krónur á ári, að því er fram kemur í fréttatilkynningu Stjórnarráðsins.
Þá verður milliþrep skattkerfisins 22,75 prósent á næsta ári í kjölfar breytinganna en hækkar í 23,5 prósent árið eftir. Efsta þrep verður óbreytt eða 31,8 prósent. Við staðgreiðslu skatta bætist síðan útsvar sveitarfélaga sem er að meðaltali 14,44% óháð tekjum.
Tekjur frá 0 til 330.225 krónur á mánuði falla undir fyrsta þrepið, tekjur á bilinu 330.226 til 927.087 undir annað þrepið og tekjur yfir 927.087 undir þriðja þrepið.
Stóð aldrei til að setja á hátekjuskatt
Þegar ríkisstjórnin kynnti fyrst hugmyndir sínar um þriggja þrepa skattkerfi á fundi með forsvarsmönnum vinnumarkaðsins í febrúar síðastliðnum þá féllu þær í grýttan farveg.
Í kjölfarið benti Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á, í viðtali við Morgunútvarp Rásar 2, að ríkisstjórnin hefði ekki aðeins kynnt skattkerfisbreytingar heldur einnig tillögur um að lengja fæðingarorlofið í tólf mánuði, tryggja félagslegar lausnir í húsnæðismálum og ráðast í alvöru aðgerðir gegn félagslegum undirboðum.
Hún sagði jafnframt nýja skattþrepið vera töluverðar umbætur fyrir lægsta tekjuhópinn og að þriggja þrepa kerfi væri í raun „prógressívt“ skattkerfi. Aðspurð hvort að skoðað hefði verið að setja á hátekjuskatt svaraði Katrín að það hefði væntanlega legið fyrir frá því að þau mynduðu þessa ríkisstjórn að þau væru ekki að fara setja á hátekjuskatt.
„Skattalækkun er skattalækkun“
Skiptar skoðanir voru þó um þessar breytingar ríkisstjórnarinnar og sköpuðust heitar umræður við þriðju atkvæðagreiðslu frumvarpsins í gær. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði umræðuna „algjörlega kostulega um þessar mikilvægu skattabreytingar“.
„Samfylkingin vill ekki málið af því það hefði átt að hækka skatta, Miðflokkurinn vill ekki svona, Viðreisn þetta er eiginlega skattahækkun og Píratar tala um þá sem eru undir 300 þúsund krónum en þeir sem eru komnir í 280 þúsund krónum borga ekki skatt til ríkisins. Við tökum enga skatta af fólki sem er með 280 þúsund krónur í laun, allir þeir skattar fara til sveitarfélaga. Skattalækkun er skattalækkun gott fólk og maður á að styðja slíkt mál,“ sagði Bjarni en frumvarpið var að lokum samþykkt með 32 atkvæðum, 23 greiddu ekki atkvæði og 8 voru fjarstaddir.
Hægt að skoða breytingar á eigin skattbyrði
Á vef Stjórnarráðsins geta einstaklingar reiknað út í þar til gerðri reiknivél hvernig skattbyrði þeirra mun breytast á næsta ári og árið 2021. Tekin eru dæmi úr reiknivélinni um manneskja sem er með 280 þúsund krónur í tekjur á mánuði en í kjölfar breytinganna mun hún greiða 69.792 krónum minna í tekjuskatt á ári þar sem eftir breytinguna mun sú manneskja ekki þurfa greiða neinn tekjuskatt til ríkisins því persónuafsláttur verður hærri en álagður tekjuskattur. Öll hennar staðgreiðsla fer til sveitarfélagsins.
Tekjuskattur einstaklings með 370 þúsund í tekjur á mánuði lækkar um 124.620 krónur á ári í kjölfar breytinganna og tekjuskattur þess sem er með 835 þúsund í tekjur á mánuði lækkar um 72 þúsund á ári.
Í heildina mun tekjuskattur einstaklinga lækka um 5,5 milljarða króna á komandi ári og árið 2020 mun lækkunin nema alls 21 milljarði. Auk lækkunar tekjuskatts kemur til framkvæmdar seinni hluti 0,5 prósentustiga lækkunar tryggingargjalds, en gjaldið var lækkað um 0,25 prósentustig í upphafi árs 2019.