Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir sækist eftir því að verða útvarpsstjóri RÚV. Frá þessu greinir hún á Facebook síðu sinni, og gerir ítarlega grein fyrir afstöðu sinni til RÚV á hvaða tímamótum það stendur.
„Þrátt fyrir að Ríkisútvarpið eigi að vera fjölmiðill allra landsmanna er það ekki svo í allra augum. Fólk ætti samt að staldra við þegar ráðamenn og háværar raddir slá því fram að tilvist Ríkisútvarpsins sé úrelt, að útvarpsgjaldið ætti ekki að innheimta og að stofnunin ætti ekki að njóta tekna af auglýsingum. Auglýsingatekjur Ríkisútvarpsins, sem bætast ofan á tæplega 17.000 króna útvarpsgjald, eru 20% af þeim heildartekjum sem fjölmiðlar hafa af auglýsingagerð í landinu. Stór hluti þeirra tekna er af sjónvarpsauglýsingum sem myndu ekki færast til annara miðla nema í litlum mæli ef Ríkisútvarpið væri ekki á auglýsingamarkaði. Þá myndi fjöldi hæfileikafólks, hönnuða og leikstjóra missa framfæri sitt og þekking flytjast burt eða glatast. Sjálfsagt ætti að þykja að hafa íslenskt auglýsingaefni, því auglýsingar varðveita sérkenni þjóða og menningu. Á eftir Ríkisútvarpinu tekur Morgunblaðið mest til sín, þrátt fyrir að hafa sterkastan bakhjarlinn, þá Vísir/365 og Fréttablaðið og svo reka lestina miklu minni miðlar sem eiga ekki eins ríka vildarvini. Fjölmiðlafrumvarp menntamálaráðherra er tilraun til að skapa sanngjarnara umhverfi fyrir einkarekna fjölmiðla sem halda úti ólíkum sjónarmiðum og eru lýðræðinu lífsnauðsyn.
Stjórn RÚV ákvað að framlengja umsóknarfrest, til að sækja um starf útvarpsstjóra, en gagnrýnt hefur verið listi yfir umsækjendur var ekki birtur opinberlega. Umsóknarfrestur er til 9. desember.