Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, skaut föstum skotum að Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra í stöðuuppfærslu á Facebook í gærkvöldi en ástæðan var viðtal við ráðherrann í kvöldfréttum RÚV.
Fram kom í fréttum RÚV að dómsmálaráðherra liti ekki svo á að Ísland væri í félagsskap með pólskum stjórnvöldum þótt þau hefðu lýst yfir stuðningi við málstað Íslands í Landsréttarmálinu. Stuðningsyfirlýsingin breytti engu um hvernig Ísland ræki málið fyrir Mannréttindadómstól Evrópu.
„Við erum í engum félagsskap með þeim og þó að þeir tjái sig um þetta mál og hafi skoðun á því. Evrópuríki gera það ítrekað varðandi hin ýmsu mál sem eru fyrir mannréttindadómstólnum og er heimilt að gera slíkt við hvaða mál sem er. Þannig að þetta breytir engu því hvernig við förum í málið og við erum í engum sérstökum félagsskap við Pólverja vegna þessa máls,“ sagði Áslaug Arna í gærkvöldi.
Jafnframt greindi hún frá því að íslensk stjórnvöld hefðu ekki vitað af áhuga Pólverja á málinu fyrr en greinargerðin var gerð opinber. Í henni segjast Pólverjar líta svo á að niðurstaða málsins hafi mikið fordæmisgildi og geti haft áhrif á evrópskar reglur um skipun dómara. „Það hafa auðvitað verið ýmsar skoðanir á því og við höfum talið að þetta mál hafi ekki mikið fordæmisgildi,“ sagði ráðherra á RÚV.
Takmörkuð virðing fyrir sannleikanum
Þórhildur Sunna gagnrýnir þessi orð ráðherra. „Kanntu annan? Hentisemisrökin eru orðin svo mörg og virðingin fyrir sannleikanum svo takmörkuð að dómsmálaráðherra landsins leyfir sér að halda fram þessari þvælu beint í kjölfarið á greinargerð ríkislögmanns í málinu, þar sem fordæmisgildið er beinlínis notað sem rök gegn dómi MDE,“ skrifar hún.
Hún heldur áfram og segir að forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir hafi endurtekið þessi rök sem afsökun fyrir því að áfrýja málinu; vegna þess að það væri fordæmisgefandi í Evrópu. „Nú má einhver rifja upp fyrir mér hvernig bæði Áslaug og Þórdís Kolbrún hafa verið að tala um þetta mál – en ekki man ég til þess að þær hafi áður borið fyrir sig að þessi dómur hafi ekkert fordæmisgildi í Evrópu.“
Þá segir Þórhildur Sunna það jafnframt vera vandræðalegt fyrir Áslaugu Örnu að RÚV vísi svo í álit meirihluta fjárlaganefndar beint í kjölfarið á „bullinu í henni“ þar sem fordæmisgildið sé meðal annars notað sem rök fyrir 8 milljóna króna fjárveitingu til Ríkislögmanns.
Ráðuneytið taldi dóm MDE ekki aðeins hafa áhrif hér á landi heldur um alla Evrópu
Þórhildur Sunna vísar í tilkynningu frá dómsmálaráðuneytinu sem birtist þann 9. apríl síðastliðinn á vef Stjórnarráðsins en í henni segir að dómur MDE hafi ekki aðeins áhrif hér á landi heldur einnig um alla Evrópu, hvað varðar spurningar um það hvort skipan dómstóla sé ákveðin með lögum í þeim skilningi sem lagður sé til grundvallar í niðurstöðu meirihlutans.
„Það er einnig mat sérfræðinga dómsmálaráðuneytisins, að höfðu samráði við ríkislögmann og dr. Thomas Horn, málflutningsmann og sérfræðing í mannréttindum og réttarfari, að leita eigi endurskoðunar á dómi MDE enda vekur málið upp veigamiklar spurningar um túlkun og framkvæmd mannréttindasáttmála Evrópu,“ segir í tilkynningu dómsmálaráðuneytisins frá því í apríl.
Þórhildur Sunna líkur færslu sinni á að segja: „Meiri ansvítans vitleysan sem vellur upp úr stjórnarheimilinu þessa dagana.“
Nei hættu nú alveg. Áslaug Arna, dómsmálaráðherra sagði rétt í þessu (í kvöldfréttum RÚV) um Landsréttarmálið fyrir...
Posted by Þórhildur Sunna Ævarsdóttir on Sunday, December 8, 2019