Varla hefur farið fram hjá mörgum að framundan er fárviðri sem mun ganga yfir landið í dag og á morgun. Veðurstofan hefur í fyrsta sinn gefið út rauða viðvörun frá því að litakóðakerfið var tekið upp árið 2017, en alls staðar annars staðar hefur verið gefin út appelsínugul viðvörun.
Þá mun veðrið hafa gríðarleg áhrif á samfélagið allt en skólahald, atvinnulíf og samgöngur munu riðlast víða um land.
Reykjavíkurborg hefur beðið foreldra og forráðamenn barna að sækja börn sína strax að skóladegi loknum í dag svo að allir, börn, foreldrar og starfsfólk skóla og leikskóla, geti verið komnir til síns heima áður en ofsaveður skellur á, um 15:00, eins og spár Veðurstofu Íslands gera ráð fyrir.
Þá verður allt frístunda- og félagsmiðstöðvastarf fellt niður, auk þess sem sundlaugar, útibú Borgarbókasafnsins og söfn á vegum borgarinnar verða lokuð eftir klukkan 14:00.
Varðskipið Þór til taks í Ísafjarðardjúpi
Í fréttatilkynningu frá Landhelgisgæslunni kemur fram að varðskipið Þór sé til taks í Ísafjarðardjúpi ef á þurfi að halda en skipið hefur sinnt eftirliti á hafsvæðinu umhverfis landið undanfarna daga.
Þá séu þyrlur Landhelgisgæslunnar sömuleiðis til taks í Reykjavík. „Eins og gefur að skilja er lítil skipaumferð á Vestfjörðum. Fjögur skip eru undir Grænuhlíð og eitt tankskip er á leið fyrir Hornbjarg og fer suður með Vestfjörðum. Engin skipaumferð er á miðunum norður af landinu en stjórnstöð Landhelgisgæslunnar fylgist vel með skipaumferð umhverfis landið allt,“ segir í tilkynningunni.
Landhelgisgæslan lét fylgja með myndbönd sem tekin voru af áhöfn varðskipsins Þórs þegar skipið var út af Dýrafirði snemma í morgun. Eins og sjá má var þá farið að hvessa hressilega á Vestfjarðamiðum og gekk sjórinn yfir varðskipið.
„Förum varlega og hugsum til þeirra sem standa vaktina með okkur“
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hvetur í stöðuuppfærslu á Facebook alla til að fara varlega í dag og á morgun og vera ekki á ferðinni að óþörfu.
„Viðbragðsaðilar eru tilbúnir, Landsbjörg og björgunarsveitir um land allt, lögreglan og almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra, starfsfólk sveitarfélaga, sjúkraflutningamenn og slökkvilið, Landhelgisgæslan og hafnarverðir, Vegagerðin, Veðurstofan og snjóeftirlitsmenn, ferðaþjónustufyrirtækin sem miðla upplýsingum í samstarfi við Safe travel, Samhæfingarmiðstöðin í Skógarhlíð sem mun tryggja að við séum öll á sömu blaðsíðu, Rauði krossinn og fjölmiðlar sem miðla upplýsingum til okkar allra. Og svo eru auðvitað margir fleiri sem þurfa að sinna sínum störfum þrátt fyrir veður og vinda.
Þannig að förum varlega og hugsum til allra þeirra sem standa vaktina með okkur, ekki aðeins í dag og á morgun, heldur standa þá vakt árið um kring,“ skrifar hún.
Nú er spáð aftakaveðri um land allt. Ég hvet okkur öll til að fara varlega í dag og á morgun og vera ekki á ferðinni að...
Posted by Katrín Jakobsdóttir on Tuesday, December 10, 2019