Alls selja rúmlega fimmtungur íslenskra fyrirtækja sínar vörur og þjónustu í gegnum vefsíður eða öpp. Það er töluvert hærra hlutfall fyrirtækja en meðalhlutfall innan Evrópusambandsins sem er 16 prósent. Rúmlega helmingur íslenskra fyrirtækja auglýsir jafnframt á netinu.
Þetta kemur fram í niðurstöðum samevrópskrar rannsóknar Hagstofu Íslands á viðskiptum fyrirtækja í gegnum netið.
Helmingur auglýsir á netinu
Hærra hlutfall fyrirtækja selur þó þjónustu sína í gegnum netið í Svíþjóð, Noreg og Danmörku eða rúmlega 25 prósent. Hæst er þó hlutfallið í Írlandi eða alls 30 prósent fyrirtækja.
Í könnuninni kemur jafnframt fram að sala fyrirtækja á vörum og þjónustu árið 2019 í gegnum vefsíður eða öpp á Íslandi var 6 prósent af rekstrartekjum fyrirtækja, þar af var 68 prósent í gegnum eigin vefsíður eða öpp og 32 prósent í gegnum almennar sölusíður.
Enn fremur kemur fram í niðurstöðum könnunarinnar að í fyrra greiddu rúmur helmingur íslenskra fyrirtækja fyrir auglýsingar á netinu eða 51 prósent fyrirtækja samkvæmt sömu könnun. Þá var minni en þriðjungur af heildar birtingarkostnaði greiddur til erlendra aðila hjá 73 prósent fyrirtækjanna. Hjá 14 prósent fyrirtækja rann einn til tveir þriðjungar birtingarkostnaðar til erlendra aðila og hjá 13 fyrirtækja meira en tveir þriðjungar.
Könnun Hagstofunnar var á meðal 2023 fyrirtæki en undanskilin voru fyrirtæki með færri en 10 starfsmenn og fyrirtæki í fjármálastarfsemi, landbúnaði, fiskveiðum, skógrækt, eða úrvinnslu hráefna úr jörðu.
Þrír af hverjum fjórum Íslendingum versluðu á netinu
Í ár versluðu methlutfall Íslendinga á netinu eða alls 76,8 prósent landsmanna, samkvæmt nýrri neyslukönnun Gallup. Það er hæsta hlutfall Íslendinga frá því að mælingar hófust. Hæst er hlutfallið í aldurshópnum 25 til 34 ára en 95 prósent þeirra höfðu verslað á netinu á síðustu 12 mánuðum.
Þá segist meirihluti Íslendinga versla oftar í erlendum vefverslunum en íslenskum. Fimmtungur segist þó versla oftar í íslenskum en erlendum og 17,8 prósent segjast versla jafnoft í erlendum og innlendum vefverslunum.