Leiðtogar Evrópusambandsins samþykktu í gær að festa í lög þá stefnu að sambandið verði kolefnishlutlaust árið 2050. Pólland var eina þjóðin sem skrifaði ekki undir samkomulagið. Samkomulagið kemur í kjölfar þess að leiðtogaráð og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins kynntu til sögunnar Grænan sáttmála Evrópu fyrr í vikunni. Frá þessu er greint á vef BBC.
Sáttmálinn kveður meðal annars á um 100 milljarða evra fjárveitingu sem styðja á við orkuskipti innan álfunnar. Auk þess felst í sáttmálanum áætlun um á aukið hringrásarhagkerfi innan sambandsins.
Stíft var fundið um samkomulagið á leiðtogafundinum sem haldinn var í Brussel í gær. Tékkar, Ungverjar og Pólverjar voru mótfallnir samkomulaginu í fyrstu þar sem þeim þótti útilokað að 100 milljarðar nægðu til ná kolefnishlutleysi innan 27 ríkja sambandsins. Eftir að staðfest hefði verið að kjarnorka væri innifalin í samkomulaginu samþykktu Tékkar og Ungverjar að skrifa undir samkomulagið óbreytt.
Pólverjar sem reiða sig að langmestu leyti á kol við sína orkuframleiðslu sögðust hins vegar þurfa meira tíma til að skipta yfir í grænni orku og skrifuðu því ekki undir samkomulagið. Haft er eftir Charles Michael, nýja forseta leiðtogaráðs Evrópusambandsins, að sambandið myndi á næstu misserum halda áfram að reyna sannfæra Pólverja um að styðja samkomulagið.
Nothing worth having comes easy... But we did it!
— Charles Michel (@eucopresident) December 13, 2019
The EU will be Climate Neutral by 2050. 🇪🇺🌍 pic.twitter.com/2NelLmAV1Z
Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sagðist vonast til að aðildarríkin nái að fullgilda og innleiða samkomulagið strax á næsta ári. Bretland tók ekki þátt í samkomulaginu þar sem þeir stefna á að yfirgefa Evrópusambandið í lok janúar á næsta ári. Hins vegar lýsti breska ríkisstjórnin því yfir í sumar að Bretland stefndi að kolefnishlutleysi fyrir 2050.