Sjávarútvegur er næst stærsta útflutningsgrein Íslendinga og hefur hlutdeild geirans í gjaldeyrisöflun aukist töluvert undanfarin þrjú ár. Greinin skilaði um fimmtungi gjaldeyristekna þjóðarbúsins á fyrri helmingi ársins 2019. Þrátt fyrir minna útflutt magn í ár frá fyrra ári þá er spáð að útflutningsverðmæti sjávarafurða verði um 9 prósent meira í ár en í fyrra.
Þetta er á meðal þess sem kemur fram nýrri skýrsla Íslandsbanka um íslenskan sjávarútveg.
3,4 tonn á hvern íbúa
Ísland vermir 19. sæti á lista yfir stærstu fiskveiðiþjóðir heims og er hlutdeild landsins um 1,3 prósent á heimsvísu. Íslendingar veiða þó næst mest á hvern íbúa í heiminum á eftir Færeyjum eða alls 3,4 tonn á hvern íbúa.
Störfum í sjávarútvegi hefur fækkað töluvert síðastliðinn áratug vegna þeirra miklu tækniframþróun sem orðið hefur í greininni. Þrátt fyrir færri störf hefur framleiðni í greininni aukist um 55 prósent á árinum 2011 til 2018.
Minna útflutt magn en meiri útflutningsverðmæti
Sjávarútvegurinn aflar næst mestar gjaldeyristekna atvinnuvega Íslands eftir ferðaþjónustunni. Eftir aukningu á útfluttu magni sjávarafurða undanfarin tvö ár eru horfur á að minna magn sjávarfangs verði flutt út í ár en í fyrra.
Í skýrslu Íslandsbanka kemur fram að á fyrstu 9 mánuðum ársins nam samdráttur útflutnings nærri 6 prósentum miðað við sama tímabili í fyrra og skýrist viðsnúningurinn að stórum hluta af loðnubresti á fyrsta fjórðungi ársins. Horfur eru á að nærri 3 prósent samdráttur verði í útfluttu magni sjávarafurða í ár frá fyrra ári. Á næsta ári segir spáir bankinn hins vegar að útflutt magn sjávarafurða aukist á ný um ríflega 1 prósent.
Þrátt fyrir þennan samdrátt í útflutning þá eru horfur á að útflutningsverðmæti sjávarafurða verði um það bil 9 prósent meira í ár en í fyrra þrátt fyrir minna útflutt magn eða í kringum 250 milljarðar króna. Samkvæmt skýrslunni kemur það til meðal annars af hækkun heimsmarkaðsverðs í erlendri mynt, veikari krónu í ár en í fyrra og aukningu á útflutningi þorsks. Íslandsbanki spáir jafnframt fyrir um 4 prósent aukningu útflutningsverðmætis á næsta ári.
Fiskeldi taki fram úr fiskveiðum á næsta ári
Enn fremur kemur fram í skýrslunni að útflutt magn eldisfisks hefur aukist umtalsvert á undangengnum árum og var það rúmlega þrefalt meira á árinu 2018 en á árinu 2014. Á sama tímabili hefur verðmæti vegna útflutnings á eldisfiski aukist minna, eða rúmlega tvöfaldast. Ástæðan er einna helst styrking krónunnar á umræddu tímabili.
Í skýrslunni segir að mesta aukningin í framleiðslu sjávarafurða á heimsvísu liggi í fiskeldi og gerir spá OECD ráð fyrir að fiskeldi muni í fyrsta skipti standa undir meira magni sjávarafurða en hefðbundnar fiskveiðar árið 2022.
Tímabil fjárfestinga tekið við
Á árinu 2018 námu skuldir sjávarútvegsfyrirtækja 389 milljörðum króna og hækkaði skuldastaða félaganna um 24 milljarða frá fyrra ári. Alls hafa skuldir fyrirtækja í greininni hafa aukist um 74 milljarða eða nærri fjórðung frá því þær náðu lágmarki árið 2016.
Í skýrslunni segir að þrátt fyrir skuldaaukningu stóð rekstur sjávarútvegsfélaga betur undir skuldsetningunni á árinu 2018 en ári áður. Nýjar lántökur voru umfram afborganir lána á árinu og hefur slíkt átt sér stað allt frá upphafi árs 2015 sem bendi til þess að tímabili niðurgreiðslu skulda sé lokið og að tímabil aukinnar fjárfestingar sé nú tekið við í greininni.