Í Fréttablaðinu í dag eru birtar upplýsingar úr tölvupóstum sem Samherji afhenti blaðinu og fyrirtækið telur sýna að það hafi ekki vitað af mútugreiðslum upp á um 16,5 milljónir króna sem runnu til Sacky Shanghala, fyrrverandi dómsmálaráðherra Namibíu, og James Hatuikulipi, stjórnanda ríkisrekna sjávarútvegsfyrirtækisins Fishcor. Greiðslurnar voru til að tryggja Samherja aðgengi að kvóta.
Um er að ræða greiðslur til félagsins ERF 1980 og samkvæmt Fréttablaðinu er það afstaða Samherja að ef þeir sem stýra fyrirtækinu hefðu vitað um mútugreiðslurnar sem greiddar voru hefði fylgt yfirlit um þær með í tölvupósti sem Jóhannes Stefánsson, fyrrverandi starfsmaður Samherja, sendi til Örnu McClure, yfirlögfræðing Samherja, á árinu 2014.
Jóhannes hefur gengist við því að hafa greitt mútur fyrir hönd Samherja til að tryggja fyrirtækinu aðgengi að kvóta í Namibíu. Hann segir hins vegar allar greiðslur hafa farið fram með vitund og vilja Þorsteins Más Baldvinssonar, fyrrverandi forstjóra Samherja og eins aðaleiganda fyrirtækisins, og Aðalsteins Helgasonar, sem var yfir starfseminni í Namibíu.
Þá birtir Fréttablaðið brot úr tölvupósti frá Agli Helga Árnasyni, sem tók við starfsemi Samherja Í Namibíu árið 2016 þegar Jóhannes Stefánsson hætti, til Ingólfs Péturssonar, fyrrverandi fjármálastjóri Samherja í Namibíu. Stjórnendur Samherja telja þann tölvupóst sýna að Jóhannes hafi gert samninga um mútugreiðslur án þeirra vitneskju.
Mjög lítið brot af meintum mútugreiðslum
Umfjöllun Kveiks, Stundarinnar, Al Jazeera og Wikileaks um mútugreiðslur, meint peningaþvætti og skattsniðgöngu Samherja byggir að mestu á tugþúsundum gagna og uppljóstrun Jóhannesar Stefánssonar, fyrrverandi starfsmanns Samherja í Namibíu. Í viðbrögðum stjórnenda Samherja við umfjölluninni hefur verið lögð áhersla á það að Jóhannes hafi greitt ráðamönnum í Namibíu mútur án vitneskju stjórnenda Samherja. Í yfirlýsingu sem Samherji sendi frá sér sama kvöld og umfjöllunin birtist, 12. nóvember síðastliðinn, sagði að svo virtist sem Jóhannes hefði „hugsanlega flækt Samherja í viðskipti sem kunni að vera ólögmæt.“ Jóhannes hafnar þessu alfarið, líkt og áður sagði. Í umfjölluninni kom einnig fram að mútugreiðslur til ráðamanna í Namibíu hafi staðið yfir fram á árið 2019, en Jóhannes Stefánsson lét af störfum hjá Samherja í júlí 2016. Þar sagði að þær hefðu numið 1,4 milljarði króna hið minnsta. Sú upphæð sem fjallað er um í Fréttablaðinu í dag er rúmlega eitt prósent þeirrar upphæðar. Jóhannes hefur
Þegar er búið að handtaka og ákæra Bernhard Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Namibíu, Sacky Shanghala, fyrrverandi dómsmálaráðherra Namibíu, og fjóra aðra menn fyrir að hafa þegið 103,6 milljónir namibískra dollara, jafnvirði 860 milljóna íslenskra króna, í greiðslur fyrir að tryggja félögum tengdum Samherja eftirsóttan kvóta í landinu. Sú upphæð sem fjallað er um í Fréttablaðinu í dag er tæp tvö prósent þeirrar upphæðar.
Auk Shanghala og Esau voru James Hatuikulipi, sem hætti sem stjórnarformaður namibísku ríkisútgerðarinnar Fishcor nýverið, Tamson 'Fitty' Hatuikulipi, tengdasonur Esau, Ricardo Gustavo, samstarfsmaður hans og Pius Mwatelulo, sem einnig tengist Hatuikulipi fjölskylduböndum, ákærðir.
Jóhannes ræddi viðbrögð Samherja við málinu í Kastljósi á miðvikudag og sagði að fyrirtækinu væri „velkomið að reyna að villa um fyrir fólki“. Hann væri bara ábyrgur fyrir 20-30 prósemt af þeim mútugreiðslum sem greiddar hefðu verið til ráðamanna í Namibíu fyrir aðgang að kvóta áður en að hann hætti störfum hjá fyrirtækinu.
Myndband birt á nafnlausum reikning
Í gær birtist myndband af símtali Jóhannesar við fyrrverandi eiginkonu sína frá árinu 2017, þar sem hann hótar henni og öðrum öllu illu, á Youtube á nafnlausum aðgangi.
Fyrrverandi eiginkona hans tók myndbandið upp á sínum tíma og í samtali við Stundina í gær segist hún hafa deilt myndbandinu með Jóni Óttari Ólafssyni, starfsmanni Samherja, árið 2017, og nokkrum öðrum. Jóhannes hafi beðið hana afsökunar á símtalinu og reynt að bæta henni það upp. Þau séu ekki ósátt í dag.
Jóhannes sjálfur sagði við Stundina að hann hefði verið ölvaður og örvinglaður þegar hann hringdi í eiginkonu sína. Hann sæi eftir því, gengist við því sem hann gerði og beðið alla hlutaðeigandi aðila afsökunar.“