Formaður velferðarnefndar Alþingis, auk þriggja nefndarmanna, leggst gegn því að frumvarp félags- og barnamálaráðherra um breytingar á lögum um almennar íbúðir verði samþykkt. Nefndarmennirnir gagnrýna harðlega vinnubrögð ráðherra við framlagningu frumvarpsins og telja það jafnframt ámælisvert að stjórnvöld grípi til átaks á húsnæðismarkaði án þess að fari fram fullnægjandi þarfagreining.
Jafnframt telur nefndin hættu á að hækkun tekju- og eignarmarka leigjenda í almennum íbúðum verði á kostnað þeirra allra tekjulægstu og þeirra sem séu í mestri þörf. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í nefndaráliti minnihlutans um frumvarpið
Miðist við tekjur í tveimur lægstu tekjufimmtungunum
Ein stærsta breytingin sem lögð er til í frumvarpinu er hækkun tekju- og eignamarka leigjenda almennra íbúða. Í núgildandi lögum um almennar íbúðir er kveðið á um hve há tekju- og eignamörk leigjenda megi vera og miðast þau mörk nú við neðri fjórðungsmörk, 25 prósent, reglulegra heildarlauna fullvinnandi einstaklinga. Það eru sömu tekju- og eignamörk og gilt hafa um leigjendur félagslegra leiguíbúða sem fjármagnaðar hafa verið með lánum með sérstökum vaxtakjörum frá Íbúðalánasjóði.
Með frumvarpi félagsmálaráðherra er lögð til sú breyting að tekju- og eignamörk verði hækkuð þannig að þau miðist við tekjur í tveimur lægstu tekjufimmtungunum, 40 prósent.
Í nefndaráliti minnihlutans er bent á að frumvarpið er liður í stuðningi stjórnvalda við lífskjarasamningana svokölluðu sem undirritaðar voru í apríl. Nefndin segir að kjarasamningarnir hafi einungis verið gerðir við hinar vinnandi stéttir en að frumvarpið hafi einnig áhrif á hinn almenna fasteignaeiganda sem og þeim hópi sem hækkandi leiguverð hefur komið hvað harðast niður á, öryrkjum, eldri borgurum, atvinnulausum og námsmönnum.
Telur minnihlutinn því ámælisvert að farið sé í átak sem þetta án þess að það fari fram þarfagreining á hvar á landinu þörfin fyrir húsnæði sé mest og hver staðan sé á almennum fasteignamarkaði.
Eftir breytingarnar muni stór hópur bera skertan hlut frá borði
Minnihlutinn segir jafnframt að meirihluti velferðarnefndarinnar hafi ekki tekið tillit til þeirra athugasemda sem fram komu í umsögn Félagsbústaða hf. sem er eigandi langstærsta hluta félagslegra íbúða á landinu, velferðarsviðs Reykjavíkurborgar sem þjónustar flesta íbúa landsins eða umsagna Öryrkjabandalagsins og Brynju – hússjóðs Öryrkjabandalagsins um frumvarpið.
Í umsögnum þeirra var bent á að frumvarpið feli í sér mikla fjölgun þeirra einstaklinga sem munu eiga kost á almennum íbúðum vegna hækkunar tekju- og eignamarka og vegna áforma um byggðaframlög þar sem skortur er á leiguhúsnæði. Lýst er yfir áhyggjum um að slíkar breytingar gætu haft þau áhrif að sá hópur sem til þessa hefur átt rétt á félagslegu húsnæði beri skertan hlut frá borði.
Félagsbústaðir telja til mynda að ef frumvarpið nái fram að ganga þá muni félagslegar íbúðir sveitarfélaga verða settar í minni forgang fyrir árin 2020 til 2022.
Meirihlutinn fylgjandi frumvarpinu
Í áliti meirihlutans um frumvarpið er einnig fjallað um þetta, þar að segja þá skoðun að með breytingunum sé verið að lögfesta forgang tekjulágra einstaklinga á vinnumarkaði og slík forgangsröðun kunni til að mynda að vera á kostnað örorkulífeyrisþega. Meirihlutinn bendir hins vegar á að fjármagn til úthlutunar á stofnframlögum hafi verið aukið verulega og ætti sú aukning að koma til móts við hækkun tekju- og eignamarka.
Auk þess sé með frumvarpinu lagt til að Íbúðalánasjóður skuli tímabundið miða við að a.m.k. tveir þriðju hlutar þess fjármagns sem til úthlutunar er hverju sinni renni til íbúða sem ætlaðar eru tekju- og eignaminni leigjendum á vinnumarkaði. Lagt er til grundvallar að ákvæðið falli úr gildi þegar stofnframlögum hefur verið úthlutað til 1.534 almennra íbúða sem ætlaðar eru tekju- og eignaminni leigjendum á vinnumarkaði.
Meirihlutinn leggur því til að frumvarpið verði samþykkt en beinir því til félags- og barnamálaráðherra að fylgjast sérstaklega með húsnæðisþörf öryrkja og fatlaðs fólks sem þarf á sértækum búsetuúrræðum að halda og bregðast við í samræmi við þær þarfir.
Gagnrýna vinnubrögð ráðherra
Minnihlutinn gagnrýnir jafnframt harðlega vinnubrögð ráðherra við framlagningu frumvarpsins í áliti sínu. Gagnrýnt er að umsagnaraðilar hafi aðeins fengið eina viku til að kynna sér frumvarpið og skila inn umsögn í samráðsgátt stjórnvalda.
Jafnframt gagnrýnir minnihlutinn það harkalega hversu seint frumvarpið er lagt fram á Alþingi. Mælt var fyrir málinu um miðjan nóvember eða um hálfu ári eftir að umsagnarferli lauk í samráðsgátt. Nefndinni hafi því ekki gefist nægur tími til þess að vinna lagfæringar á frumvarpinu, meðal annars þar sem ekki hafi gefist tími til þess að kalla alla umsagnaraðila á fund nefndarinnar sem gerðu alvarlegar athugasemdir við frumvarpið.
„Það verður að teljast ámælisvert af stjórnvöldum þegar um er að ræða eins viðamikið mál og umfangsmiklar breytingar á lögum um almennar íbúðir að standa svo að málum,“ segir í nefndarálitinu.