Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, segir að með samspili borgarmyndunar og ójafnaðar þá sé að teiknast upp ný mynd af faröldrum. Hann segir að offita sé einn þeirra faraldra en fimmtungur fullorðinna Íslendinga þjáist nú af offitu. Hann telur því að mikilvægt sé að borgarskipulag hvetji til hreyfingar.
Þetta kom fram í máli borgarstjóra á fundi læknaráðs sem fjallað erum í nýjasta tölublaði Læknablaðsins.
Ofþyngd nátengd stétt og stöðu
Á fundinum sagði Dagur að þó að það væri ekki endilega vinsælt að berjast fyrir auknu heilbrigði í samhengi við skipulag borga og bæja þá það væri það gríðarlega gagnlegt.
„Það má segja að við séum í endurskoðunarfasa þegar kemur að læknisfræði og borgarskipulagi. Við erum að ræða og fjalla um áhrif skipulags á heilsu og þurfum að hafa heilbrigðisgleraugu á öllu sem við gerum,“ sagði Dagur.
Hann rakti hvernig landsmenn voru á hraðferð í átt að ofþyngd á árunum 2010 til 2011 miðað við tölur OECD en að hins vegar voru ákveðnar vísbendingar um að margir áhættuþættir heilbrigðis hafi batnað eftir hrun. „Það vekur mikil viðbrögð í samfélaginu hvernig við tölum um þetta eða hvort við tölum um offitu sem heilbrigðisvanda,“ sagði Dagur og benti á að ofþyngd væri nátengd ójöfnuði.
Mikilvægt að borgarskipulag hvetji til hreyfingar
Þá hefur borgarskipulag mikil áhrif á lífshætti, líkt og hreyfingu, samkvæmt Degi og vísaði hann þar í niðurstöður bandarísku stofnunarinnar Clean Air Act. „Þau sýna að það skiptir máli í hvernig borgarhverfi þú býrð fyrir það hvernig þú hreyfir þig,“ sagði Dagur og að það hafi síðan áhrif á heilsu, þar á meðal ofþyngd og þunglyndi.
Stofnunin sýndi fram á að línulegt samband væri á milli hreyfingar og þess hvort þú býrð í þéttri og blandaðri byggð eða dreifðri. Til að mynda skiptir máli hvað skólar eru langt frá heimilinu og hve langt er í næsta græna svæði.
Líkurnar á því að hreyfa sig aukist um 20 prósent ef útivistarsvæði er innan 1 kílómetra fjarlægðar frá heimilinu, um 21 prósent ef skóli er innan þessa marka, 23 prósent þegar þéttleiki byggðar eykst um fjórðung og 19 prósent þegar þjónustan eykst um fjórðung.
Dagur sagði að þetta væri ástæða þess að vilji sé fyrir því að innan aðalskipulags Reykjavíkur sé útivistarsvæði innan 300 metra frá sem allra flestum heimilum. Samkvæmt honum á það við um 93 prósent heimila í Reykjavíkurborg.
Fimmtungur fimmtán ára unglinga yfir kjörþyngd
Í nýrri skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar um heilsufar Íslendinga kom fram að offita væri orðið umfangsmikið lýðheilsuvandamál hér á landi en þeim sem þjást af offitu hefur fjölgað til muna síðustu ártaugi.
Í skýrslunni kemur fram að fullorðnir Íslendingar sem þjást af offitu hefur fjölgað til muna síðasta áratugi, hlutfallið hefur farið úr 12 prósentum árið 2002 í 27 prósent árið 2018.
Þá voru fimmtungur 15 ára gamalla íslenskra drengja og stúlkna yfir kjörþyngd á árunum 2013 til 14, en það var þriðja hæsta hlutfallið í Evrópu.