Namibísku sexmenningarnir, sem kærðir hafa verið fyrir spillingu, mútuþægni og peningaþvætti í tengslum við Samherjaskjölin í Namibíu, munu sitja áfram í gæsluvarðhaldi fram til 20. febrúar þegar fyrirtaka verður í máli þeirra. Dómari við hæstarétt í Windhoek í Namibíu komst að þeirra niðurstöðu í dag.
Þetta kemur fram hjá fréttamiðlinum, The Namibian, í dag.
Sexmenningarnir höfðu farið fram á að handtaka þeirra yrði felld úr gildi á þeim forsendum að hún hefði verið ólögmæt. Dómari komst hins vegar að þeirri niðurstöðu í dag að málið væri ekki það áríðandi að það yrði tekið á dagskrá dómsins. Fyrirtaka í málinu verður því 20. febrúar næstkomandi.
Fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Namibíu, Bernhard Esau, og fyrrverandi dómsmálaráðherrann, Sachy Shanghala eru á meðal fyrrnefnda sexmenninga. Auk James Hatuikulipi, sem hætti sem stjórnarformaður namibísku ríkisútgerðarinnar Fishcor í nóvember, Tamson 'Fitty' Hatuikulipi, tengdasonur Esau, Ricardo Gustavo, samstarfsmaður hans og Pius Mwatelulo, sem einnig tengist Hatuikulipi fjölskylduböndum.
Þeir voru handteknir í lok nóvember og dæmdir í gæsluvarðhald. Þeir eru ákærðir fyrir að hafa þegið 103,6 milljónir namibískra dollara, jafnvirði 860 milljóna íslenskra króna, í greiðslur fyrir að tryggja félögum tengdum Samherja eftirsóttan kvóta í landinu.