Unnur Valdimarsdóttir, faraldsfræðingur og prófessor við læknadeild Háskóla Íslands‚ segir að sterk rök séu fyrir því að ein mikilvægasta lýðheilsuáskorun 21. aldar sé heilsufarslegar afleiðingar af áföllum og langvinnri streitu. Því sé mikilvægt að auka forvarnir og meðferðir á því sviði.
Þetta er á meðal þess sem kemur fram í ritstjórnargrein Unnar í nýjasta tölublaði Læknablaðsins.
Þriðjungur kvenna verða fyrir kynferðislegu eða líkamlegu ofbeldi
Í greininni kemur fram að alls mun tæplega þriðjungur manna þróa með sér geðröskun af einhverju tagi einhvern tímann á lífsleiðinni en líkurnar á því aukast verulega í kjölfar áfalla og þungbærrar lífsreynslu á borð við ofbeldi, náttúruhamfarir, tekju- eða atvinnumissi, greiningu lífshættulegra sjúkdóma innan fjölskyldu og ástvinamissi.
Unnur bendir á að slíkir atburðir séu algengir í okkar samfélagi en til dæmis megi gera ráð fyrir því að þriðjungur kvenna verði fyrir kynferðislegu eða líkamlegu ofbeldi og flest okkar upplifa alvarleg veikindi og/eða ástvinamissi einhvern tímann á lífsleiðinni.
Þá hafi rannsóknar á síðustu árum rennt styrkum stoðum áfalla og áfallatengdra raskana við þróun líkamlegra sjúkdóma en Unnur vinnur um þessar mundir að rannsóknum sem varpa ljósi á breytileika í heilsufarsþróun í kjölfar áfalla. Þar á meðal vinnur rannsóknarhópurinn hennar að rannsókninni Áfallasaga kvenna í samstarfi við Íslenska erfðagreiningu.
Aukin hættu á hjarta- og æðasjúkdómum
Fyrstu niðurstöðum úr sænska hluta þeirrar rannsóknarinnar sýna ótvírætt að fólk með áfalla- og streitutengdar raskanir, þar á meðal áfallastreituröskun, áfallastreituviðbrögð, aðlögunarröskun og önnur streitutengd viðbrögð, er í um 30 prósent aukinni áhættu á fjölmörgum sjálfsofnæmissjúkdómum.
Enn fremur er fólk með slíkar raskanir í 30 til 60 prósent aukinni áhættu á hjarta- og æðasjúkdómum og um 50 prósent aukinni áhættu á ýmsum lífshættulegum sýkingum á borð við heilahimnubólgu, hjartaþelsbólgu og blóðsýkingum.Í greininni segir að yngri einstaklingar með áfallatengdar raskanir séu í meiri áhættu á ofangreindum sjúkdómum sem og einstaklingar með svæsnari áfallatengdar raskanir. Á hinn bóginn virtist áhætta á þessum illvígu sjúkdómum vera minni meðal fólks sem tók SSRI-lyf fyrsta árið eftir greiningu áfallatengdu röskunarinnar, sem gefi ákveðna vísbendingu um gagnsemi slíkra íhlutana.
Aukið eftirlit og fræðsla geti skipt máli
Unnur telur að þessi nýja þekkingi eigi brýnt erindi við lækna og annað heilbrigðisstarfsfólk með skjólstæðinga og aðstandendur þeirra sem séu að ganga í gegnum mjög þungbæra lífsreynslu. „Hér getur fræðsla, aukið eftirlit, skimun og, eftir atvikum, tilvísun í geðheilbrigðisþjónustu skipt máli til að minnka líkur á frekari heilsubresti hjá þessum viðkvæmu hópum,“ segir í greininni.
Að lokum segir Unnur að starfi þeirra sé hvergi nærri lokið og að í deiglunni séu meðal annars rannsóknir á áhrifum slíkra raskana á þróun taugasjúkdóma og krabbameina, og erfðarannsóknir á breytileika heilsufars í kjölfar áfalla.