Guðrún Ögmundsdóttir, fyrrverandi þingmaður og borgarfulltrúi, er látin. Hún lést á gamlársdag og var banamein hennar krabbamein. Eiginmaður hennar greindi frá þessu í stöðuuppfærslu á Facebook í dag.
Guðrún sat á þingi fyrir Samfylkinguna frá árinu 1999 og fram til ársins 2007. Hún var borgarfulltrúi frá árinu 1992 og til ársins 1998 og hafði þar áður verið varaborgarfulltrúi.
Guðrún var fædd í Reykjavík 19. október 1950. Hún lauk námi í félagsfræði og félagsráðgjöf frá Roskilde Universitetscenter 1983, framhaldsnám við sama skóla í fjölmiðlafræði 1983–1985, cand. comm.-próf 1985.
Undanfarin ár, eftir að þingferli lauk, starfaði Guðrún fyrst sem sérfræðingur í menntamálaráðuneytinu en svo sem tengiliður vegna vistheimila hjá dómsmálaráðuneytinu auk þess sem hún var formaður Unicef árin 2016-2018.
Guðrún var gift Gísla Arnóri Víkingssyni og átti tvö börn. Kjarninn sendir fjölskyldu Guðrúnar samúðarkveðjur.