Karlar ráða lögum og lofum þegar kemur að æðstu stjórnundarstöðum hér á landi og ákveðið „karlaveldi“ er þar til staðar. Þetta kemur fram í svörunum þátttakenda í nýrri rannsókn sem birtist í síðasta tölublaði tímaritsins Stjórnmál & stjórnsýsla.
Þá segir í rannsókninni að ástæða þess að engin kona sé forstjóri í skráðu félagi á Íslandi sé ekki sú að skortur sé á hæfileikaríkum konum til að sinna starfi æðstu stjórnenda, en þar sem karlar séu í meirihluta þeirra sem taka ákvarðanir um ráðningu forstjóra þá séu möguleikar kvenna takmarkaðir.
„Það kom skýrt fram hjá þátttakendum að öflugt tengslanet karla getur skýrt þetta að hluta þar sem tengslanet karla horfir síður til kvenna og þekkingar þeirra. Karlar fái því fleiri tækifæri, meiri reynslu og þjálfun yfir starfsævina sem veitir þeim ákveðið forskot,“ segir í greininni.
„Vinir karlanna“ verða oft fyrir valinu
Konur á hinn bóginn hafi „ósamfelldari starfsferil“ og fæðingarorlof hjálpi ekki til og geri fyrirtækjum erfiðara að fjárfesta í þjálfun kvenna. Annað sem kom fram og tengist tengslaneti karlmanna er aðgengi að fjármagni en stór hluti fjármagnsins er í höndum þeirra, samkvæmt svörum þátttakenda.
Í stjórnum fyrirtækja sem ráða yfir stórum hluta fjármagnsins hér á landi sitji karlar og hafi setið. Þessar stjórnir velji og vilji einstakling sem þær þekki og geti haft áhrif á. „Því verða „vinir karlanna“ sem þeir séu í nánum tengslum við oft fyrir valinu. Þessu tengt sé sterk staða karla í atvinnulífinu „þar sem þeir hafa tögl og hagldir þegar kemur að stjórnun og eignarhaldi fyrirtækja“,“ segir í greininni.
Bæta þarf fæðingarorlofskerfið
Þá kemur fram að markmið greinarinnar sé að skoða hvað valdi því að engin kona gegni stöðu forstjóra í skráðu félagi á Íslandi og til hvaða ráðstafana sé hægt að grípa til þess að auka hlutdeild þeirra í æðstu stjórnunarstöðum að mati kvenna sem eru í áhrifastöðum í íslensku samfélagi.
Margir þátttakendur nefndu að breyta þyrfti vinnuskipulagi og vinnumenningu og bæta þyrfti fæðingarorlofskerfið. Þá megi langur vinnudagur ekki þykja sjálfsagt mál meðal æðstu stjórnenda og þar spili margir aðilar inn í, til að mynda hluthafar, stjórnir, stjórnvöld og verkalýðshreyfingin. Þá þurfi konur að fjárfesta meira í fyrirtækjum og konur sem eru í áhrifastöðum í íslensku viðskiptalífi þurfi að láta meira til sín taka og hafa áhrif á að konur séu ráðnar sem æðstu stjórnendur. Þær hafi margar hverjar vannýtt tækifæri til þess í gegnum stjórnarsetu sína.
Karlmenn þurfa að taka meiri þátt og axla aukna ábyrgð í fjölskyldulífi
Enn fremur kemur fram að efla þurfi konur og hvetja til þess að sækjast eftir æðstu stöðum í íslenskum fyrirtækjum og karlmenn þurfi að taka meiri þátt og axla aukna ábyrgð í fjölskyldulífi. Það myndi gera konum kleift að vera í störfum sem krefjast mikillar fjarveru frá fjölskyldu.
Önnur atriði sem nefnd voru eru að skylda ætti fyrirtæki til að auglýsa stjórnendastöður, líkt og gert er í opinbera geiranum og að ráðningaferlið yrði að vera faglegt og gagnsætt.
„Karlar og konur þurfa að standa saman að þessari breytingu. Nýnæmi rannsóknarinnar felst í því að í fyrsta sinn kemur fram í rannsókn sem þessari að stór hópur kvenna vill láta setja kynjakvótalög á framkvæmdastjórnir fyrirtækja á Íslandi. Ástæðan er sú að þær telja að smitáhrif kynjakvótans sem settur var á stjórnir félaga hafi ekki orðið og því þurfi að grípa inn í með þessum hætti. Hér er um að ræða konur sem nú þegar eru í stjórnunar- og leiðtogastöðum, konur sem sitja í stjórnum félaga og konur sem eiga fyrirtæki á Íslandi,“ segir í greininni.
Breytinga sé þörf, róttækra breytinga sem kalla meðal annars á kynjakvóta á framkvæmdastjórnir.
Þá segir í greininni að takmarkanir rannsóknarinnar séu meðal annars lágt svarhlutfall en fjöldi svara gefi þó ákveðnar vísbendingar um afstöðu þeirra kvenna sem eru í æðstu stjórnendastöðum hér á landi.