Capacent vinnur nú að úttekt á mennta- og menningarmálaráðuneytinu en stefnt er að því að ljúka henni á næstu vikum. Lokaniðurstöður hafa ekki borist ráðuneytinu en þær verða gerðar aðgengilegar þegar þar að kemur. Þetta kemur fram í svörum ráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans.
Samkvæmt ráðuneytinu fól það Capacent í október síðastliðnum að gera úttekt á ráðuneytinu; vinnulagi, skipulagi, fyrirtækjamenningu, viðhorfum stofnana sem heyra undir ráðuneytið og svo framvegis. Ekki sé þó um eiginlega stjórnsýsluúttekt að ræða.
„Vinnan er enn í gangi, en stefnt er að því að ljúka henni á næstu vikum. Hún hefur meðal annars falist í rýni á ýmsum vinnugögnum, viðhorfsmælingum, starfslýsingum og svo framvegis,“ segir í svarinu.
Þá kemur enn fremur fram að meðal annars hafi ráðuneytið verið að bregðast við ábendingum frá umboðsmanni Alþingis frá síðasta hausti. Sömuleiðis hafi þetta verið gott tækifæri til að kanna hvernig skipulagsbreytingar frá árinu 2016 hafi reynst.
Ráðuneytið yrði að bæta starfshætti og verklag
Í frétt RÚV frá 1. október síðastliðnum kom fram að umboðsmaður Alþingis hefði talið að viðbrögð menntamálaráðuneytisins í þremur málum hefðu ekki verið fullnægjandi með hliðsjón af yfirstjórnunar og eftirlitsheimildum ráðuneytisins. Ráðuneytið yrði að gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að starfshættir þess, verklag og meðferð mála yrði framvegis betur úr garði gerð.
Fram kom í frétt umboðsmanns á vefsíðu hans að um mitt síðasta ári hefði hann bent ráðuneytinu á að ítrekað hefðu orðið tafir á að það svaraði fyrirspurnum embættisins. Þá hefði umboðsmanni jafnframt borist kvartanir og ábendingar um tafir á meðferð mála og ófullnægjandi svör ráðuneytisins.
Umboðsmaður tók það fram að unnið hefði verið að úrbótum á starfsháttum ráðuneytisins. Verið væri að gera skipulagsbreytingar og ráða nýja starfsmenn. Hann ætlaði því að fara nánar yfir efni álita sinna með ráðherra og starfsmönnum hans þegar þessar breytingar væru að baki.