Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, segir að öllum steinum verði velt við, til að komast að því hvað gerðist þegar Boeing 737 vél brotlent skömmu eftir flugtak í Íran, með þeim afleiðingum að allir um borð létust. Þar af voru 63 Kanadamenn en alls létust 180.
Stjórnvöld í Íran hafa sagt að þau muni ekki hleypa yfirvöldum í Bandaríkjunum að rannsókn málsins, en sem kunnugt er hafa 737 vélar Boeing - af Max gerð - verið kyrrsettar frá því í mars í fyrra, en gripið var til þess eftir tvenn flugslys, í Indónesíu og Eþíópíu, þar sem 346 létust, allir um borð í báðum vélum.
82 Iranians, 63 Canadians and 11 Ukrainians were on board the plane https://t.co/KVACERHDeb
— TIME (@TIME) January 8, 2020
Yfirvöld í Íran hafa sagt, að allt bendi til þess að einhver galli í vélinni hafi leitt til þessa hörmulega slyss, og að það sé ekki tengt átökum á milli Bandaríkjanna og Íran.
Vélin var í flota Ukraine International Airlines, af 737 - 800 gerð, og aðeins þriggja á hálfs árs gömul.
Donald Trump Bandaríkjaforseti ávarpaði þjóðina í dag, og sagði að spennan milli landanna tveggja færi minnkandi, og að það væri ekki markmið að fara í stríð við Íran, en Bandaríkjaher væri alltaf tilbúinn ef hann þyrfti að verja Bandaríkin.
Frá því 29. október 2018 hafa samtals 526 farþegar látið lífið í þremur flugslysum, þar sem tiltölulega nýjar vélar úr 737 flota Boeing, togast til jarðar. Rannsóknir á slysunum í Indónesíu og Eþíópíu eru enn í gangi, en frumniðurstöður benda til þess að vélarnar hafi verið gallaðar, og þá einkum svonefndur MCAS-búnaður, sem á að sporna gegn ofrisi.
Alþjóðleg kyrrsetning er enn í gildi vegna Max-vélanna, og ekki ljóst hvenær henni verður aflétt.