Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að snjóflóðin á Flateyri og í Súgandafirði í nótt séu miklar hamfarir og að það líti út fyrir að mikið eignatjón hafi orðið en blessunarlega ekkert manntjón. Þetta segir hún í stöðuuppfærslu á Facebook í dag.
„Það var gott að varðskipið Þór hafði verið sent vestur vegna slæmrar veðurspár og er núna á leið frá Ísafirði inn á Flateyri með mannskap og vistir. Allir viðbragðsaðilar hafa verið á fullu frá miðnætti og aðgerðir standa enn en fjöldahjálparmiðstöð verður opnuð á eftir á Flateyri. Veður er enn vont og mikilvægt að standa vaktina áfram. Stjórnvöld munu fylgjast grannt með,“ skrifar hún.
Katrín segir að hún hafi heyrt í nokkrum Vestfirðingum í morgun sem allir hafi verið slegnir. Flóðin 1995 hafi rifjast upp og það skelfilega manntjón sem hafi orðið þá. „Heyrði líka í nokkrum kærum vinum að vestan og fann hversu þungt þessir atburðir lögðust á þá. Í dag erum við öll Vestfirðingar.“
Snjóflóðin á Flateyri og í Súgandafirði í nótt eru miklar hamfarir. Það lítur út fyrir að mikið eignatjón hafi orðið en...
Posted by Katrín Jakobsdóttir on Wednesday, January 15, 2020
Þrjú snjóflóð féllu á skömmum tíma
Neyðarstigi var lýst af almannavarnardeild Ríkislögreglustjóra í nótt eftir að þrjú snjóflóð féllu á skömmum tíma á tólfta tímanum á norðanverðum Vestfjörðum. Snjóflóðin féllu á Flateyri og í Súgandafirði.
Um var að ræða stjór snjóflóð. Tvö þeirra féllu á Flateyri, annað úr Bæjargili sem fór að hluta yfir snjóflóðarvarnargarð og á hús þar sem stúlka á unglingsaldri grófst í flóðinu. Henni var bjargað og varð ekki fyrir teljandi meiðslum. Aðrir heimilismenn komust undan af sjálfsdáðum. Hitt snjóflóðið féll úr Skollahvilft, likt og hið mannskæða snjóflóð sem féll á Flateyri fyrir aldarfjórðungi síðan. Nú beindu snjóflóðagarðar flóðinu frá bæjarstæðinu.
Á vef RÚV segir að unglingsstúlkan hafi verið föst í snjóflóðinu í rúman hálftíma. Systkini hennar, fimm ára gömul stelpa og níu ára gamall drengur, komust út úr húsinu sem flóðið féll á ásamt móður sinni með því að klifra út um glugga. Stúlkan var flutt til Ísafjarðar með varðskipinu Þór ásamt aðstandendum sínum en samkvæmt móður stúlkunnar er hún í lagi og hefur hún sagt að um kraftaverk sé að ræða.