„Við erum komin að vendipunkti í viðleitni okkar til að takast á við loftslagsbreytingar,“ segir náttúrufræðingurinn og sjónvarpsmaðurinn David Attenborough. „Neyðarstund er runnin upp. Við höfum slegið hlutum á frest ár eftir ár.“
David Attenborough lét þessi orð falla í viðtali við Breska ríkisútvarpið, BBC, sem markar upphaf sérstakrar umfjöllunar fjölmiðilsins um loftslagsbreytingar sem standa mun allt árið.
Attenborough bendir á að á meðan viðtalið sé tekið standi suðausturhluti Ástralíu í ljósum logum. „Hvers vegna? Af því að hitastig jarðar er að hækka.“
Hann segir það augljósan þvætting hjá sumum stjórnmálamönnum og álitsgjöfum að segja eldana í Ástralíu ekkert hafa með hlýnun jarðar að gera. „Við vitum það upp á hár að mannanna verk eru að baki hlýnun jarðar.“
Aðgerðir ríkja heims í loftslagsmálum og samstaða þeirra þar
um er að mati Attenboroughs ekki í takt við varnaðarorð vísindamanna um að
brýnt sé að bregðast hratt við.
Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna var meðal þeirra sem sagði að niðurstaða nýjustu viðræðnanna, sem fram fóru á loftslagsráðstefnunni í Madrid í síðasta mánuði, hafi valdið vonbrigðum. Í sama streng tóku bresk stjórnvöld og fleiri.
Áströlsk stjórnvöld eru meðal þeirra sem gagnrýnd hafa verið fyrir að gangast ekki við þörfum skuldbindingum sínum í loftslagsmálum.
„Við verðum að gera okkur grein fyrir því að þetta er ekki leikur,“ segir Attenborough við BBC. „Þetta snýst ekki um að eiga notalegar rökræður og ná einhverri málamiðlun. Þetta er brýnt vandamál sem verður að leysa og það sem meira er, við vitum hvernig á að gera það. Í því fellst þversögnin; að við neitum að taka þau skref sem við vitum að við þurfum að taka.“
Loftslagsvísindamenn Sameinuðu þjóðanna birtu greinargerð árið 2018 þar sem tilteknar voru þær aðgerðir sem hægt væri að fara í til að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda frá iðnaði, landbúnaði og samgöngum um helming til ársins 2030.
Í frétt BBC er rakið að hið gagnstæða hafi átt sér stað. Losun gróðurhúsalofttegunda hefur aukist frá útgáfu skýrslu vísindamannanna og er hún meiri en nokkru sinni í mannkynssögunni. Attenborough bendir á að með hverju árinu sem líði sé erfiðara að ná árangri í baráttunni við loftslagsbreytingar.
Útlit sé því fyrir að jörðin okkar eigi eftir að hitna enn meira í framtíðinni. „Heimurinn er þegar breyttur,“ hefur BBC eftir Ed Hawkins, prófessor við Háskólann í Reading.
Í ár mun sjónum stjórnmálamanna verða beint að loftslagsbreytingum og þeim áhrifum sem þær eru þegar farnar að hafa á vistkerfi. „Við erum háð náttúrunni í hvert sinn sem við drögum að okkur andann og leggjum okkur eitthvað til munns,“ segir Attenborough.
Í Ástralíu hafa skógareldarnir stofnað vistkerfum í hættu, hundruð milljóna dýra hafa drepist. Bæði plöntur og dýr gætu verið í útrýmingarhættu vegna eldanna. Slík hætta var þegar fyrir hendi og í tímamóta skýrslu sem birt var í fyrra vöruðu sérfræðingar við því að um milljón tegundir dýra og plantna gætu dáið út á næstu áratugum.
Eldarnir í Ástralíu hafa nú mögulega hraðað því ferli.