Namibíska ríkisútgerðin Fishcor, sem stýrt var af mönnum sem sitja í fangelsi fyrir að hafa þegið mútur frá Samherja, átti ekki fyrir launum um síðustu mánaðarmót. Fishcor á heldur ekki fjármagn til að greiða laun fyrir janúarmánuð.
Til að bregðast við þeirri stöðu var 25 þúsund tonna kvóti af hrossamakríl færður til útgerðarinnar til að úthluta gegn greiðslu. Alls vinna meira en þúsund manns hjá Fischor, sem gerir útgerðina að næsta stærsta atvinnurekanda í hafnarbænum Lüderitz í Namibíu.
Fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Namibíu, Bernhard Esau, úthlutaði alls um 360 þúsund tonnum af hrossamakrílkvóta til Fishcor frá árinu 2014 og fram á síðasta ár. Hluti þess kvóta var seldur til Samherja og grunur leikur á að íslenski sjávarútvegsrisinn hafi greitt mútur til að fá þann kvóta á lægra verði en eðlilegt hefði verið. Þær mútugreiðslur fóru meðal annars til fyrrverandi stjórnarformanns Fishcor, James Hatuikulipi, áðurnefnds Esau og aðila þeim tengdum.
The Namibian greinir frá því að innanhúsmenn í sjávarútvegi telji að Fishcor ætli sér að nota togarann Heinaste, sem var kyrrsettur af namibískum yfirvöldum í fyrra, til að veiða hinn nýúthlutaða kvóta. Heinaste er að mestu í eigu Samherja. Bennet Kangumu, stjórnarformaður Fishcor, vildi þó ekki staðfesta þetta í samtali við blaðið.
Telja að Samherji sé að reyna að selja Heinaste á hrakvirði
Verksmiðjutogarinn Heinaste er í eigu namibísk félags sem íslenska sjávarútvegsfyrirtækið Samherji á stóran hlut í í gegnum dótturfélag sitt Esju Holding, en hann var kyrrsettur af dómara að kröfu yfirvalda í Namibíu í nóvember í fyrra. Ástæðan fyrir kyrrsetningunni var sögð ætluð brot vegna veiða togarans á svæði sem átti að vera lokað.
Aðrir eigendur eignarhaldsfélags Heinaste eru namibísk félög, meðal annars Arctic Nam Investments. Saman eiga namibísku félögin 42 prósent í félaginu en eina eign þess er áðurnefndur togari, Heinaste.
Þróa kerfi til að taka á spillingu
Samherji tilkynnti á föstudag að fyrirtækið ætli að þróa og innleiða heildrænt stjórnunar- og regluvörslukerfi sem byggist á áhættuskipulagi fyrirtækisins, meðal annars með áherslu á spillingu, efnahagslegar refsiaðgerðir og peningaþvætti.
Í tilkynningu vegna þessa kom fram að stefnt sé að því að ljúka innleiðingu kerfisins síðar á þessu ári og að ákvörðun um innleiðingu kerfisins hafi verið tekin á „grundvelli reynslu af starfsemi fyrirtækisins í Namibíu.“
Samherji sagðist enn fremur vera að draga úr starfsemi sinni í Namibíu um þessar mundir með það að markmiði að hætta alfarið rekstri í landinu. Það væri hins vegar ljóst að það muni taka einhvern tíma. „Allar ákvarðanir vegna starfseminnar í Namibíu verða teknar í nánu samráði við þar til bær stjórnvöld og í samræmi við gildandi lög og reglur,“ sagði í fréttatilkynningunni.
Ljóst er að tilraunir Samherja til að selja Heinaste eru ekki gerðar í nánu samráði, eða í þökk, stjórnvalda í Namibíu.
Þegar búið að handtaka og ákæra
Samherji hefur verið í miklu brimróti undanfarna mánuði eftir umfjöllun Kveiks, Stundarinnar, Al Jazeera og Wikileaks um mútugreiðslur, meint peningaþvætti og skattsniðgöngu Samherja, sem byggði að mestu á tugþúsundum gagna og uppljóstrun Jóhannesar Stefánssonar, fyrrverandi starfsmanns Samherja í Namibíu.
Þegar er búið að handtaka og ákæra áðurnefnda Bernhard Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Namibíu, James Hatuikulipi, fyrrverandi stjórnarformaður Fishcor, Sacky Shanghala, fyrrverandi dómsmálaráðherra Namibíu, þrjá aðra menn fyrir að hafa þegið 103,6 milljónir namibískra dollara, jafnvirði 860 milljóna íslenskra króna, í greiðslur fyrir að tryggja félögum tengdum Samherja eftirsóttan kvóta í landinu.
Auk Shanghala, Esau og James Hatuikulipi er um að ræða Tamson 'Fitty' Hatuikulipi, tengdasonur Esau og frændi James, Ricardo Gustavo, samstarfsmaður hans og Pius Mwatelulo, sem einnig tengist Hatuikulipi fjölskylduböndum, ákærðir.
Mál Samherja er til rannsóknar í Namibíu, á Íslandi og í Noregi. Þá hafa eignir verið frystar í Angóla vegna málsins og þar á sér einnig stað sakamálarannsókn.