Á dagskrá Alþingis í dag er frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, lagt fram af þingflokki Viðreisnar og fulltrúum úr tveimur öðrum stjórnarflokkum, Samfylkingu og Pírötum.
Ef frumvarpið yrði að lögum myndi það brjóta upp fiskveiðistjórnunarkerfið eins og það er í dag, og hefur verið um all langt skeið.
Í frumvarpinu felast þrjár megin breytingar. Í fyrsta lagi verði þeir aðilar skilgreindir sem tengdir sem eiga að minnsta kosti tíu prósent hlutafjár í öðrum sem heldur á meira en eitt prósent kvóta. Sama gildi um kröfur sem geri það að verkum að ætla megi að eigandi þeirra hafi áhrif á rekstur aðila sem ræður yfir eitt prósent hlutafjár eða meira. Samkvæmt gildandi lögum þarf sjávarútvegsfyrirtæki að eiga meirihluta í annarri útgerð til að hún teljist tengd, en eftirlit með því hvað teljist tengdir aðilar hefur auk þess verið í lamasessi.
Í öðru lagi er lagt til að allir þeir sem ráða yfir eitt prósent heildaraflahlutdeildar þurfi að stofna hlutafélag um reksturinn og skrá félagið á markað. Það myndi þýða, að óbreyttu, að 21 sjávarútvegsfyrirtæki þyrftu að skrá sig á markað til viðbótar við Brim, sem er eina fyrirtækið sem heldur á kvóta sem er skráð í dag.
Líkt og áður sagði þá stendur allur þingflokkur Viðreisnar að frumvarpinu og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður flokksins, er fyrsti flutningsmaður þess. Haldi dagskrá þingsins í dag mun hún því mæla fyrir málinu. Auk þeirra eru Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, og Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, flutningsmenn þess.
Flokkarnir þrír sem standa að frumvarpinu hafa verið að mælast með á bilinu 35 til 38 prósent sameiginlegt fylgi í könnunum undanfarna mánuði og starfa þegar saman í meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur, ásamt Vinstri grænum.
Fimm tillögur um breytta skilgreiningu
Ríkisstjórnin hefur sjálf verið að vinna að tillögum um mögulegar breytingar á kvótaþaki og skilgreiningu á tengdum aðilum. Verkefnastjórn var skipuð til þess í janúar í fyrra. Stjórnarandstaðan á fulltrúa í þeirri verkefnastjórn, Oddnýju G. Harðardóttur, þingmann Samfylkingarinnar.
Eftir að Samherjamálið kom upp í nóvember var þeirri verkefnastjórn gert að flýta ákveðnum hluta vinna sinnar og skila fyrir lok síðasta árs. Lokaskýrsla hennar á svo að liggja fyrir í mars. Samkvæmt heimildum Kjarnans eru deilur innan verkefnastjórnarinnar um hvort lækka eigi kvótaþakið – það hlutfall af úthlutuðum fiskveiðikvóta sem einn hópur tengdra aðila má halda á samkvæmt lögum – úr tólf prósentum í lægri prósentu og lítið hefur verið rætt á vettvangi hans um hvert hlutfall meirihlutaeignar í tengdum aðilum, sem í dag er 50 prósent, ætti að vera.
Verkefnastjórnin skilaði hins vegar fimm tillögum um breytta skilgreiningu á tengdum aðilum 30. desember 2019. Í bréfi sem formaður hennar, Sigurður Þórðarson, sendi Kristjáni Þór Júlíussyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra vegna tillöguskilanna sagði: „Verkefnastjórnin vill taka fram, að í tillögum sem hér fylgja með er hvorki tekin afstaða til reglna um hámarksaflahlutdeild né kröfu um hlutfall meirihlutaeignar í tengdum aðilum. Verkefnastjórnin áformar að taka þessi atriði til skoðunar og fjalla um í lokaskýrslu sinni.“
Í tillögunum, fimm felst að skilgreining á tengdum aðilum verði látin ná til hjóna, sambúðarfólks og barna þeirra, að ákveðin stjórnunarleg tengsl milli fyrirtækja leiði til þess að fyrirtækin eru talin tengd nema sýnt sé fram á hið gagnstæða, að skilgreint verði hvað felst í raunverulegum yfirráðum, að aðilar sem ráða meira en sex prósent af aflahlutdeild eða 2,5 prósent af krókaflahlutdeild skulu tilkynna til Fiskistofu áætlaðan samruna, eða kaup í félagi sem ræður yfir hlutdeild eða kaup á hlutdeild og koma kaupin ekki til framkvæmda nema samþykki Fiskistofu liggi fyrir og að Fiskistofu verði veittar auknar heimildir til afla gagna.