Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, hefur lagt fram fyrirspurn á Alþingi til Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra þar sem hún spyr hver afstaða íslenskra stjórnvalda sé til þess þegar ríki beiti aftökum án dóms og laga.
Hún spyr enn fremur hvort ráðherra hafi lýst afstöðu stjórnvalda til aftökunnar á íranska hershöfðingjanum Qasem Soleimani sem Bandaríkjamenn felldu með loftskeyti í byrjun janúar. Jafnframt hvort ráðherra hafi komið afstöðu Íslands til aftöku án dóms og laga á framfæri við bandarísk stjórnvöld.
Kjarninn greindi frá því þann 9. janúar síðastliðinn að Rósa Björk, sem er varaformaður utanríkismálanefndar, hefði kallað eftir því að Guðlaugur Þór kæmi sem fyrst á fund utanríkismálanefndar þingsins til að ræða ástandið milli Írans og Bandaríkjanna.
Svör ráðherra óskýr á fundi utanríkismálanefndar
Rósa Björk segir í samtali við Kjarnann að Guðlaugur Þór hafi komið á fund utanríkismálanefndar í gær en vegna þess að henni hafi þótt svör ráðherra óskýr þá lagði hún fram formlega fyrirspurn til hans á Alþingi. Hún segist ekki geta greint frekar frá því sem fram fór á fundinum í gær.
Fram kom í stöðuuppfærslu Rósu Bjarkar á Facebook fyrr í janúar að hún vildi að á fundinum yrðu rædd áhrif gagnkvæmra árása á svæðið, hvaða stefnu og sýn íslensk stjórnvöld hefðu á málið, mögulega framvindu og þá áhrif. Enn fremur hvort utanríkisráðherra hefði verið í samskiptum við bandarísk stjórnvöld eða önnur stjórnvöld vegna árásarinnar á hershöfðingjann Qasem Suleimani, og þá hver þau samskipti hefðu verið.
Ísland verður að taka afdráttarlausa afstöðu
„Nýtt ár sem byrjar með gagnkvæmum árásum og hótunum milli Bandaríkjanna og Írans veldur ugg og óvissu um afleiðingar stórkarlalegra upphrópana. Þetta er ekki einfaldur leikur karla sem fela sig á bakvið Twitter, heldur snýst um líf venjulegs fólks sem verður alltaf mest fyrir barðinu á öllu stríðsbrölti,“ skrifaði Rósa Björk.
Þá taldi hún að Ísland yrði að taka afdráttarlausa afstöðu gegn hótunum um stríð og hernaðarárásum á svæðinu, svæði þar sem viðkvæmt stjórnmalaástand gæti breyst í púðurtunnu á skömmum tíma með tilheyrandi afleiðingum. „Líka á utanríkisstefnu Íslands eins og við þekkjum af biturri reynslu. Og alveg sérstaklega þegar æðsti valdamaður Bandaríkjanna er jafn óáreiðanlegur, hvatvís og ótraustur og raunin er núna.“