Flokkur fólksins leggur til að stjórnarmaður Reykjavíkur í Sorpu víki sæti úr stjórn og telur hann í raun öll að stjórnin segði af sér. Henni hafi mistekist hlutverk sitt.
Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, lagði fram tillögu þess efnir í borgarráði í morgun en henni var frestað.
Í stjórn Sorpu sitja Birkir Jón Jónsson fyrir Kópavogsbæ, sem einnig er formaður, Líf Magneudóttir fyrir Reykjavíkurborg, en hún er varaformaður, Ágúst Bjarni Garðarsson fyrir Hafnarfjarðarbæ, Jóna Sæmundsdóttir fyrir Garðabæ, Kolbrún G. Þorsteinsdóttir fyrir Mosfellsbæ og Bjarni Torfi Álfþórsson fyrir Seltjarnarnesbæ.
Stjórn Sorpu ákvað á stjórnarfundi í gær að afþakka vinnuframlag Björns H. Halldórssonar, framkvæmdastjóra fyrirtækisins, á meðan mál hans eru til meðferðar innan stjórnar, að því er fram kemur í tilkynningu sem stjórn Sorpu sendi frá sér vegna skýrslu innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar um ástæður framúrkeyrslu sem varð á áætluðum framkvæmdakostnaði vegna byggingar gas- og jarðgerðarstöðvar í Álfsnesi og móttökustöðvar í Gufunesi.
Stjórnin reyni að fría sig ábyrgð
Í tillögu Flokks fólksins segir að enn ein svört skýrsla innri endurskoðunar hafi birst á þessu kjörtímabili sem varla er hálfnað og snúi nú að stjórnarháttum Sorpu.
„Í skýrslunni koma fram ástæður framúrkeyrslu sem varð á áætluðum framkvæmdakostnaði vegna byggingar gas- og jarðgerðarstöðvar í Álfsnesi og móttökustöðvar í Gufunesi. Framkvæmdarstjórn, undir stjórn stjórnar Sorpu hafði lagt til að tæpum 1,4 milljörðum króna yrði bætt við fjárhagsáætlun fyrirtækisins vegna næstu fjögurra ára. Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar gerði jafnframt úttekt á stjórnarháttum félagsins og fann þar margt athugavert og jafnvel ámælisvert. Að sögn framkvæmdastjóra höfðu hvorki stjórnarformaður né aðrir stjórnarmenn frumkvæði að því að afla upplýsinga um heildarkostnað á hverjum tíma til að gera viðeigandi samanburð við áætlanir,“ segir í tillögunni.
Þá spyr Kolbrún hvort stjórnarmaður Sorpu hljóti ekki að víkja úr stjórn í kjölfar áfellisdóms sem stjórnin fái. Varla sé hægt að henda allri ábyrgðinni á framkvæmdarstjórann. Ábyrgðin hljóti fyrst og fremst að vera stjórnarinnar í þessu máli. Stjórn Sorpu reyni að fría sig ábyrgð meðal annars með því að segja að hún hafi kallað eftir úttekt innri endurskoðunar.