Ástráður Haraldsson héraðsdómari hefur tilkynnt Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra um það með bréfi, dagsettu í dag, að hann áskilji sér allan rétt til þess að láta á það reyna fyrir dómstólum ef þegar skipaðir dómarar við Landsrétt verði skipaðir í lausa stöðu við réttinn.
Í bréfi hans, sem Kjarninn hefur undir höndum og var einnig sent til Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra, segir að það sé að mati Ástráðs augljós hætta á því að ef umsókn skipaðs Landsréttardómara sé talin gild og myndi svo leiða til nýrrar skipunar umsækjandans í embætti Landsréttardómara gætu þeir sem svo kysu látið á það reyna hvort slík skipun teldist lögmæt.
Með slíkri skipan væri í raun verið að gera tilraun til að löghelga eftir á skipun dómara sem þegar hefði verið metin ólögmæt. „Ég tel talsverðar líkur á að niðurstaða dómstóla yrði sú að slík skipan stæðist ekki. Það væri, svo vægt sé til orða tekið, í ljósi forsögunnar, afar óheppilegt bæði fyrir dómskerfið og umsækjandann ef það yrði niðurstaðan. Slíkur framgangur væri auk þess til þess fallinn að draga á langinn ríkjandi réttaróvissu um framtíðarskipan Landsréttar og fæli í sér afar sérkennileg skilaboð inn í yfirstandandi málarekstur fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu. Ég tel raunar að Landsréttur megi illa við frekari slíkum skakkaföllum.“
Ólöglega skipuð í Landsrétt
Fyrr í dag var greint frá því að fjórir hefðu sótt um lausa stöðu dómara við Landsrétt. Fjórir sóttu um stöðuna og er Ástráður þar á meðal. Hinir þrír eru Ásmundur Helgason Ragnheiður Bragadóttir, sem eru bæði dómarar við Landsrétt, og Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.
Í kjölfarið hafa íslenskir dómstólar úrskurðað að Sigríður hafi brotið stjórnsýslulög með atferli sínu. Auk þess komst Mannréttindadómstóll Evrópu að þeirri niðurstöðu í málinu í mars í fyrra að dómararnir fjórir sem voru færðir upp á lista Sigríðar væru ólöglega skipaðir, og geti þar með ekki fellt dóma yfir þeim sem fyrir þá koma, enda hafi þeir ekki hlotið réttláta málsmeðferð. Í kjölfar þess að dómur Mannréttindadómstólsins féll þá sagði Sigríður af sér embætti dómsmálaráðherra.
Málinu var skotið til yfirdeildar Mannréttindadómstólsins og málflutningur fyrir honum fer fram í næsta mánuði.
Ekki leyst með stólaballett
Ástráður rekur í bréfi sínu að svipuð staða hafi komið upp í maí 2019, þegar staða Vilhjálms H. Vilhjálmssonar við Landsrétt var auglýst laus til umsóknar, í kjölfar þess að hann tilkynnti um hann ætlaði að setjast í helgan stein. Þá hafi afstaða dómsmálaráðuneytisins verið sú að það að umsækjandi væri skipaður Landsréttardómari stæði ekki í vegi fyrir því að sá sami gæti sótt um embættið. „Þessa niðurstöðu ráðuneytisins frá í maí 2019 tel ég bersýnilega ranga. Það er mín afstaða að ekki standist að Landsréttardómari sem skipaður er ótímabundið í embætti geti án þess að segja fyrst af sér embættinu sótt um laust embætti Landsréttardómara. Ég tel raunar að þessi niðurstaða sé svo augljós af eðlisrökum að varla ætti að vefjast fyrir nokkrum manni. Enginn getur sótt um embætti sem þegar gegnir því embætti.“
Ástráður rekur það að tilgangur þess að auglýsa laust embætti Landsréttardómara nú væri sá að manna lausa stöðu sem losnaði vegna þess að Ingveldur Einarsdóttir var skipuð dómari við Hæstarétt í desember síðastliðnum, en hún var áður dómari við Landsrétt. „Þessum tilgangi verður augljóslega ekki náð með því að færa til mann úr einu embætti Landsréttardómara í annað. Sá vandi sem ólögmæt embættisfærsla dómsmálaráðherra sumarið 2017 skóp dómskerfinu og þeim einstaklingum sem ekki hafa getað gegnt störfum Landsréttardómara síðan í mars 2019 verður ekki leystur með slíkum stólaballett eða hnísustökki. Væri sú afstaða um gildi umsóknar sem ráðuneytið tók í maí 2019 almennt lögð til grundvallar væri ekkert því til fyrirstöðu að til að mynda dómarar Hæstaréttar sæktu sjálfir um hverja þá stöðu sem að auglýst yrði við réttinn. Þeir myndu að líkindum teljast meðal hæfustu umsækjenda og gætu með þessum ef þeim bið svo við að horfa, komið í veg fyrir að unnt yrði að skipa nýja dómara meðan þeim sjálfum entist embættisaldur. Augljóst er að slík endaleysa stenst ekki.“