Að vera einstakur, einn sinnar tegundar, er stundum sagt til að slá framúrskarandi fólki gullhamra. Þegar þetta orðalag var notað um nashyrninginn Súdan var meiningin öllu bókstaflegri. Hann var síðasta karldýr norðlæga hvíta nashyrningsins í gjörvallri veröldinni. Er hann dró andann í síðasta sinn fyrir tveimur árum mátti nánast heyra jarðarbúa andvarpa í uppgjöf.
Hann var farinn. Sá síðasti. Mannfólkið hafði útrýmt deilitegund nashyrninga sem komu fyrst fram á sjónarsviðið fyrir um 50 milljónum ára. Tegund sem hafði eins og allt annað sem lifir haft sínu mikilvæga hlutverki að gegna í vistkerfinu.
En verandi vel yfir tonn á þyngd, standandi á beit bróðurpartinn úr sólarhringnum og eignast aðeins eitt afkvæmi í einu og það á nokkurra ára fresti, var ekki beinlínis styrkur þegar mennirnir hófu að þrengja að búsvæðum nashyrninga í Afríku, vopnaðir byssum og lásbogum.
Stundum voru þeir einfaldlega fyrir. Seinna komst sú þjóðsaga á kreik að úr hornum þeirra mætti vinna frygðarlyf. Og það var gert. Í stórum stíl. Þótt ítrekað væri bent á með rannsóknum að sama efni væri í nashyrningshornum og nöglum manna. Það er því jafn kynörvandi að naga á sér táneglurnar og gleypa mulið nashyrningshorn.
Og þá voru eftir tveir
Áður en Súdan kvaddi þennan heim, 45 ára og því saddur lífdaga, hafði hans verið gætt af vopnuðum vörðum í friðlandi í Kenía. Þangað hafði hann verið fluttur úr dýragarði í Tékklandi. Hann var eftirsóttur, veiðiþjófar ásældust horn hans. Í friðlandinu hafði verið reynt án árangurs að koma honum til fylgilags við kvendýr. Eftir dauða hans eru aðeins tveir nashyrningar af deilitegundinni á lífi í heiminum og þeir eru báðir kvenkyns, mæðgurnar Najin og Fatu.
En vonin var ekki öll úti. Í ágúst á síðasta ári urðu merkileg tímamót er vísindamenn söfnuðu eggfrumum úr kvendýrunum tveimur og frjóvguðu þau á rannsóknarstofu með sæði sem þeir höfðu varðveitt úr Súdan og þremur öðrum karldýrum. Til urðu í fyrsta sinn tveir fósturvísar að norðlægum hvítum nashyrningum. Þessi aðgerð var svo endurtekin í desember síðastliðnum og um jólin tókst að búa til enn einn fósturvísinn.
Þetta eykur mjög svo líkurnar á því að bjarga megi tegundinni frá algjörri útrýmingu. Til stendur að endurtaka eggheimtuna úr Najin og Fatu nokkrum sinnum í viðbót áður en þær verða of gamlar.
Fatu og Najin búa í Ol Pejeta-friðlandinu í Kenía þar sem Súdan eyddi sínum síðustu árum. Til að sækja eggin þarf að svæfa þær og um leið og aðgerðin er afstaðin er flogið með kynfrumurnar á rannsóknarstofu á Ítalíu.
Um jólin tókst að frjóvga eitt eggja Fatu. Sæðið var úr nashyrningnum Suni sem drapst árið 2014. Fósturvísirinn er nú geymdur í kæli á rannsóknarstofunni ítölsku í fljótandi köfnunarefni ásamt fósturvísunum tveimur sem urðu til síðasta haust.
Najib Balala, ráðherra náttúru- og ferðamála í Kenía, segir ríkisstjórnina mjög ánægða með hvernig til hefur tekist. Verkefnið er styrkt af stjórnvöldum þar í landi og að því koma vísindamenn frá Kenía, Tékklandi, Þýskalandi og Ítalíu. „Ég hvet vísindamennina til að halda áfram að þróa tæknina og uppfinningarnar, ekki aðeins svo að hægt verði að bjarga þessari dýrategund heldur einnig öðrum sem standa frammi fyrir sambærilegri ógn,“ sagði Balala.
En hvert verður framhaldið? Hver verða örlög fósturvísanna?
Svörin við þessum spurningum eru nokkuð óvenjuleg. Norðlægu, hvítu nashyrningarnir tveir sem eftir lifa eru komnir af léttasta skeiði og því er stefnt að því að setja fósturvísana upp í annarri deilitegund hvítra nashyrninga, hinni suðlægu. Um óvenjulega staðgöngumæðrun verður því sannarlega að ræða.
Undirbúningur að þeim kafla björgunaraðgerðarinnar er þegar hafinn. Valin verður staðgöngumóðir úr hópi kvendýra hvíta, suðlæga nashyrningsins í Ol Pejeta-friðlandinu og vonast er til að hin kvendýrin styðji við uppeldið, ef þar að kemur, með nærveru sinni.
Hin suðlæga tegund, sem kalla má frænku hinnar norðlægu, er einnig á válista líkt og allar aðrar nashyrningstegundir heimsins. Á síðasta ári var því ákaft fagnað er nashyrningskýrin Viktoría í dýragarðinum í San Diego fæddi kálf sem getinn var með tæknifrjóvgun. Það jók von vísindamanna að hin mikilvæga en vandasama aðgerð að bjarga hinni norðlægu tegund frá útrýmingu væri framkvæmanleg.
Enn eru þó ýmis ljón í veginum. Að búa til fósturvísana er aðeins eitt skref á langri leið að settu markmiði. Takist að koma fósturvísunum upp er alls óvíst að meðgangan, sem tekur heila átján mánuði, heppnist vel. Einnig er ljóst að ekki verður hægt að viðhalda heilli tegund alfarið með kynfrumum tveggja kvendýra og fjögurra karldýra.
Vísindamennirnir ætla því líka að freista þess að búa til kynfrumur úr stofnfrumum sem safnað var úr tólf norðlægum, hvítum nashyrningum áður en þeir drápust. Þeir segja að tilraunirnar allar séu mikilvægar og þarfar til að bjarga tegundum í útrýmingarhættu seinna meir en minna á að besta leiðin til að viðhalda tegund sé að auka lífsgæði hennar, hætta veiðum og ágangi að búsvæðum.
Bjartsýni vísindamannanna er það mikil á þessari stundu að þeir vonast til að velja staðgöngumóður úr hópi suðlægu, hvítu nashyrninganna bráðlega og setja fósturvísana upp á þessu ári. Gangi allt að óskum gæti því lítill nashyrningskálfur, af norðlægu, hvítu deilitegundinni, dregið andann í fyrsta sinn fyrir árið 2022.