Albert Klahn Skaftason, Guðjón Skarphéðinsson og Kristján Viðar Júlíusson fengu í gær greiddar bætur úr ríkissjóði á grundvelli laga um bætur vegna sýknudóms Hæstaréttar í Guðmundar- og Geirfinnsmálum sem kveðinn var upp í fyrra. Einnig voru greiddar bætur til maka og barna Tryggva Rúnars Leifssonar og Sævars Marinós Ciesielski.
Fréttablaðið greinir frá í dag.
Samkvæmt blaðinu eru bótafjárhæðir sem hér segir:
- Albert Klahn Skaftason fær 15 milljónir
- Guðjón Skarphéðinsson fær 145 milljónir
- Kristján Viðar Júlíusson fær 204 milljónir
- Aðstandendur Tryggva Rúnars Leifssonar fá alls 171 milljón
- Aðstandendur Sævars Marinós Ciesielski fá alls 239 milljónir
Auk bótanna var 41 milljón greidd í lögmannskostnað og nemur greiðsla ríkisins því 815 milljónum króna.
Samkvæmt fréttinni eru bæturnar skattfrjálsar og skerða ekki bætur almannatrygginga eða sambærilegar greiðslur.
„Eins og fram kemur í lögunum kemur greiðsla bóta á grundvelli þeirra ekki í veg fyrir að bótaþegar geti höfðað sérstakt bótamál fyrir dómstólum til heimtingar frekari bóta. Enn sem komið er hefur Guðjón Skarphéðinsson einn málsaðila stefnt ríkinu til heimtingar bóta,“ segir í Fréttablaðinu.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra lagði fram í ríkisstjórn í lok september síðastliðins frumvarp til laga um sanngirnisbætur í kjölfar sýknudóms Hæstaréttar í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu. Í september árið áður höfðu allir sakborningar í málinu verið sýknaðir af öllum ákæruliðum.