Geysir, skip í eigu Samherja sem verið hefur verið veiðar í Namibíu, hefur verið siglt frá Namibíu, samkvæmt fréttamiðlinum Namibian Sun. Hann segir í Twitter-færslu að skipið hafi yfirgefið landið í gærkvöldi og skilið yfir 100 sjómenn eftir í óvissu. Namibian Sun segir að sjómennirnir hafi ekki fengið að vita neitt í aðdraganda þess að skipið sigldi á brott utan þess að þær upplýsingar fengust að það myndi snúa til baka þegar það fengi úthlutað nýjum fiskveiðikvóta.
JUST IN: Another vessel owned by Samherji left the Namibian shores last night, leaving more than 100 crew members stranded. The vessel, Geysir, gave no prior communication to crew members, apart from allegedly stating that it would return when it gets new fishing quotas. pic.twitter.com/w2wXtzVPsu
— Namibian Sun (@namibiansun) February 3, 2020
Þetta er í annað sinn á örfáum dögum sem fregnir berast frá Namibíu þess efnis að skip í eigu Samherja séu að hverfa frá landinu. Á föstudag var greint frá því í miðlinum New Era að skipið Saga, sem siglir undir merkjum dótturfélags Samherja á Kýpur og hefur um árabil veitt hrossamakríl í lögsögu Namibíu, hefði fyrirvaralaust siglt frá landinu. Þá fengu sjómennirnir á Sögu, sem eru um 120 talsins, sms-skilaboð um að þeir þyrfti að sækja eigur sínar um borð án tafar vegna þess að skipið væri á leið til Kanaríeyja í viðgerð. Einn sjómannanna sagði við New Era að vaninn væri sá að um 15 skipverjar færu alltaf með Sögu þegar það færi í viðgerð. Annar sagðist hafa fengið þau svör hjá útgerðinni að skipið myndi ekki snúa aftur næstu sex mánuði.
Því eru tvö af þremur skipum Samherja í Namibíu farin þaðan. Það þriðja, verksmiðjutogarinn Heinaste, er kyrrsettur í landinu, en Samherji hefur verið að reyna að selja það til þriðja aðila á verði sem namibísk yfirvöld telja langt undir markaðsvirði.
Samherji ætlar að draga úr starfsemi sinni í Namibíu
Samherji greindi frá því í yfirlýsingu sem birtist á heimasíðu fyrirtækisins um miðjan janúar að það væri að draga úr starfsemi sinni í Namibíu um þessar mundir með það að markmiði að hætta alfarið rekstri í landinu. Það væri hins vegar ljóst að það myndi taka einhvern tíma.
Síðan þá hafa hlutirnir gerst hratt. Nokkrum dögum eftir að sú tilkynning var send út var greint frá því að namibíska ríkisútgerðin Fishcor, sem stýrt var af mönnum sem sitja í fangelsi fyrir að hafa þegið mútur frá Samherja, hefði ekki átt fyrir launum fyrir desember og janúarmánuð. Til að bregðast við þeirri stöðu var 25 þúsund tonna kvóti af hrossamakríl færður til útgerðarinnar til að úthluta gegn greiðslu. Alls vinna meira en þúsund manns hjá Fischor, sem gerir útgerðina að næsta stærsta atvinnurekanda í hafnarbænum Lüderitz í Namibíu.
Fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Namibíu, Bernhard Esau, úthlutaði alls um 360 þúsund tonnum af hrossamakrílkvóta til Fishcor frá árinu 2014 og fram á síðasta ár. Hluti þess kvóta var seldur til Samherja og grunur leikur á að íslenski sjávarútvegsrisinn hafi greitt mútur til að fá þann kvóta á lægra verði en eðlilegt hefði verið. Þær mútugreiðslur fóru meðal annars til fyrrverandi stjórnarformanns Fishcor, James Hatuikulipi, áðurnefnds Esau og aðila þeim tengdum.
The Namibian greindi frá því 20. janúar að innanhúsmenn í sjávarútvegi telji að Fishcor ætli sér að nota togarann Heinaste, sem var kyrrsettur af namibískum yfirvöldum í fyrra, til að veiða hinn nýúthlutaða kvóta. Heinaste er að mestu í eigu Samherja. Bennet Kangumu, stjórnarformaður Fishcor, vildi þó ekki staðfesta þetta í samtali við blaðið.
Telja að Samherji sé að reyna að selja Heinaste á hrakvirði
Verksmiðjutogarinn Heinaste er í eigu namibísk félags sem íslenska sjávarútvegsfyrirtækið Samherji á stóran hlut í í gegnum dótturfélag sitt Esju Holding, en hann var kyrrsettur af dómara að kröfu yfirvalda í Namibíu í nóvember í fyrra. Ástæðan fyrir kyrrsetningunni var sögð ætluð brot vegna veiða togarans á svæði sem átti að vera lokað. Arngrímur Brynjólfsson skipstjóri á skipinu Heinaste, hefur játaði fyrir helgi sök vegna ásakana um ólöglegar veiðar. Dómur verður kveðinn upp í máli hans, á miðvikudag.
Aðrir eigendur eignarhaldsfélags Heinaste eru namibísk félög, meðal annars Arctic Nam Investments. Saman eiga namibísku félögin 42 prósent í félaginu en eina eign þess er áðurnefndur togari, Heinaste.
New Era greindi frá 20. janúar að minnihlutaeigendur í Esju Holding hefðu ásakað Samherja um siðlausa hegðun með því að reyna að selja Heinaste á hrakvirði til annars félags. Í miðlinum er haft eftir Vigrilio De Sousa, stjórnarformanni Arctic Nam Investments, að Samherji sé að reyna að selja sjálfum sér Heinaste á 19 milljónir Bandaríkjandala með viðskiptafléttu sem inniheldur einnig rússneskt fyrirtæki. Skipið var keypt á 28 milljónir Bandaríkjadala fyrir tveimur árum síðan og því er verðmiðinn nú um þriðjungi lægri en hann var þá.
De Sousa sagði enn fremur að Samherji hafi fjarlægt alla namibíska stjórnendur út úr stjórn félagsins sem á Heinaste. Hann grunar að þetta sé gert til þess að auðvelda enn frekar sölu togarans risavaxna á hrakvirði.
Þróa kerfi til að taka á spillingu
Samherji tilkynnti um miðjan janúar að fyrirtækið ætli að þróa og innleiða heildrænt stjórnunar- og regluvörslukerfi sem byggist á áhættuskipulagi fyrirtækisins, meðal annars með áherslu á spillingu, efnahagslegar refsiaðgerðir og peningaþvætti.
Í tilkynningu vegna þessa kom fram að stefnt sé að því að ljúka innleiðingu kerfisins síðar á þessu ári og að ákvörðun um innleiðingu kerfisins hafi verið tekin á „grundvelli reynslu af starfsemi fyrirtækisins í Namibíu.“
Samherji sagðist enn fremur vera að draga úr starfsemi sinni í Namibíu um þessar mundir með það að markmiði að hætta alfarið rekstri í landinu. Það væri hins vegar ljóst að það muni taka einhvern tíma. „Allar ákvarðanir vegna starfseminnar í Namibíu verða teknar í nánu samráði við þar til bær stjórnvöld og í samræmi við gildandi lög og reglur,“ sagði í fréttatilkynningunni.
Ljóst er að tilraunir Samherja til að selja Heinaste eru ekki gerðar í nánu samráði, eða í þökk, stjórnvalda í Namibíu. Sama virðist vera uppi á teningnum varðandi hin tvö skipin sem Samherji hefur notast við í Namibíu.
Þegar búið að handtaka og ákæra
Samherji hefur verið í miklu brimróti undanfarna mánuði eftir umfjöllun Kveiks, Stundarinnar, Al Jazeera og Wikileaks um mútugreiðslur, meint peningaþvætti og skattsniðgöngu Samherja, sem byggði að mestu á tugþúsundum gagna og uppljóstrun Jóhannesar Stefánssonar, fyrrverandi starfsmanns Samherja í Namibíu.
Þegar er búið að handtaka og ákæra áðurnefnda Bernhard Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Namibíu, James Hatuikulipi, fyrrverandi stjórnarformaður Fishcor, Sacky Shanghala, fyrrverandi dómsmálaráðherra Namibíu, þrjá aðra menn fyrir að hafa þegið 103,6 milljónir namibískra dollara, jafnvirði 860 milljóna íslenskra króna, í greiðslur fyrir að tryggja félögum tengdum Samherja eftirsóttan kvóta í landinu.
Auk Shanghala, Esau og James Hatuikulipi er um að ræða Tamson 'Fitty' Hatuikulipi, tengdasonur Esau og frændi James, Ricardo Gustavo, samstarfsmaður hans og Pius Mwatelulo, sem einnig tengist Hatuikulipi fjölskylduböndum, ákærðir.
Mál Samherja er til rannsóknar í Namibíu, á Íslandi og í Noregi. Þá hafa eignir verið frystar í Angóla vegna málsins og þar á sér einnig stað sakamálarannsókn.