Lögfræðingar innan dómsmálaráðuneytisins framkvæmdu athugun á því hvort að löglegt væri að skipa sitjandi dómara við Landsrétt í auglýstar stöður við réttinn. Ekki var leitað álits utanaðkomandi sérfræðinga.
Ekki var leitað álits sérfræðinga utan dómsmálaráðuneytisins þegar komist var að þeirri niðurstöðu innan þess að löglegt væri að sitjandi dómarar við Landsrétt sækist eftir því að fá nýja skipun við réttinn. Þess í stað var farið yfir málið af lögfræðingum innan ráðuneytisins. Enginn minnisblöð vegna málsins voru send milli ráðuneyta á meðan að athugunin stóð yfir.
Þetta kemur fram í svari dómsmálaráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans um málið.
Kjarninn greindi frá því nýverið að ráðuneytið teldi, eftir sérstaka athugun, að ekkert stæði í veg fyrir því að tveir sitjandi dómarar við Landsrétt sæktust eftir því að fá nýja skipun.
Verði það hins vegar niðurstaða dómsmálaráðherra, að fenginni umsögn dómnefndar, að skipa þegar skipaðan dómara í Landsrétt þá verður það þó ekki gert „nema viðkomandi óski áður eftir og fái lausn frá því embætti sem hann hefur nú þegar skipun til, enda verður sami maður ekki skipaður tvisvar í sama embættið.“
Þessi afstaða kom fram í svarbréfi ráðuneytisins til Ástráðs Haraldssonar héraðsdómara, sem er einn fjögurra umsækjenda um nýlega auglýsta stöðu við Landsrétt. Tveir hinna umsækjendanna, Ásmundur Helgason og Ragnheiður Bragadóttir, eru bæði þegar dómarar við Landsrétt.
Áskildi sér rétt til að fara með skipun fyrir dómstóla
Ástráður var einn þeirra fjögurra sem var metinn á meðal 15 hæfustu af dómnefnd þegar upphaflega var skipað í Landsrétt, en varð af dómarasæti þegar Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra ákvað að breyta listanum. Alþingi samþykkti svo breyttan lista Sigríðar, en á meðal þeirra sem voru á honum voru áðurnefnd Ásmundur og Ragnheiður.
Ástráður sendi Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra bréf í janúar, í kjölfar þess að gert var opinbert að hann hefði sótt um lausa stöðu Landsréttardómara, þar sem hann sagðist áskilja sér allan rétt til að láta á það reyna fyrir dómstólum ef þegar skipaðir dómarar við Landsrétt verði skipaðir í lausa stöðu við réttinn.
Í bréfinu kom fram að Ástráður teldi augljósa hættu á því að ef umsókn skipaðs Landsréttardómara sé talin gild og myndi svo leiða til nýrrar skipunar umsækjandans í embætti Landsréttardómara gætu þeir sem svo kysu látið á það reyna hvort slík skipun teldist lögmæt.
Með slíkri skipan væri í raun verið að gera tilraun til að löghelga eftir á skipun dómara sem þegar hefði verið metin ólögmæt. „Ég tel talsverðar líkur á að niðurstaða dómstóla yrði sú að slík skipan stæðist ekki. Það væri, svo vægt sé til orða tekið, í ljósi forsögunnar, afar óheppilegt bæði fyrir dómskerfið og umsækjandann ef það yrði niðurstaðan. Slíkur framgangur væri auk þess til þess fallinn að draga á langinn ríkjandi réttaróvissu um framtíðarskipan Landsréttar og fæli í sér afar sérkennileg skilaboð inn í yfirstandandi málarekstur fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu. Ég tel raunar að Landsréttur megi illa við frekari slíkum skakkaföllum.“
Innanhúsálit
Ástráður rakti í bréfi sínu að svipuð staða hefði komið upp í maí 2019, þegar staða Vilhjálms H. Vilhjálmssonar við Landsrétt var auglýst laus til umsóknar, í kjölfar þess að hann tilkynnti um hann ætlaði að setjast í helgan stein. Þá hafi afstaða dómsmálaráðuneytisins verið sú að það að umsækjandi væri skipaður Landsréttardómari stæði ekki í vegi fyrir því að sá sami gæti sótt um embættið. „Þessa niðurstöðu ráðuneytisins frá í maí 2019 tel ég bersýnilega ranga. Það er mín afstaða að ekki standist að Landsréttardómari sem skipaður er ótímabundið í embætti geti án þess að segja fyrst af sér embættinu sótt um laust embætti Landsréttardómara. Ég tel raunar að þessi niðurstaða sé svo augljós af eðlisrökum að varla ætti að vefjast fyrir nokkrum manni. Enginn getur sótt um embætti sem þegar gegnir því embætti.“
Í svörum sem Kjarninn hefur fengið frá dómsmálaráðuneytinu kemur fram að afstaða ráðuneytisins byggist á athugun lögfræðinga innan þess einvörðungu, ekki utanaðkomandi sérfræðiáliti.