Stjórn
Leikfélags Reykjavíkur ætlar ekki að birta nöfn þeirra sjö sem sóttu um stöðu Borgarleikhússtjóra.
Eggert Benedikt Guðmundsson, formaður stjórnarinnar, segir það undir hverjum og
einum umsækjenda komið hvort hann kjósi að greina frá umsókn sinni.
Starfið var auglýst 16. janúar og rann umsóknarfrestur út þann 30. þess mánaðar. Eggert telur umsóknarfrestinn hafa verið hefðbundinn að lengt, um tvær vikur, og að ekki hafi þótt tilefni til að lengja hann.
Spurður hvort hann hafi átt von á fleiri umsóknum bendir hann á að starf leikhússtjóra sé nokkuð sérhæft. Fyrirfram hafi hann ekki búist við einhverjum ákveðnum fjölda.
Staða Þjóðleikhússtjóra var auglýst á síðasta ári og sjö sóttu einnig um hana. Magnús Geir Þórðarson, fyrrverandi Borgarleikhússtjóri og Útvarpsstjóri, var ráðinn úr þeim hópi.
Í auglýsingu um stöðu Borgarleikhússtjóra stóð:
„Leikhússtjóri ber listræna ábyrgð á starfsemi leikhússins og rekstrarlega ábyrgð gagnvart stjórn félagsins. Til leikhússtjóra eru gerðar kröfur um menntun á sviði leiklistar auk umfangsmikillar þekkingar og reynslu af starfi leikhúsa.“
Ráðið til fjögurra ára
Ráðið er í starfið til fjögurra ára, en samkvæmt samþykktum Leikfélags Reykjavíkur er heimilt að endurráða leikhússtjóra í önnur fjögur ár.
Kristín Eysteinsdótir er Borgarleikhússtjóri í dag en hefur næsta sumar verið í því starfi í átta ár.
Stefnt er að því að nýr leikhússtjóri hefji störf við undirbúning leikársins 2021–2022 í samvinnu við núverandi leikhússtjóra í ársbyrjun 2021, en taki svo formlega við stjórn Borgarleikhússins í júlí 2021.
Eggert segist ekki ætla að tjá sig um umsækjendurna enda eigi stjórnin nú eftir að fara yfir umsóknirnar. „Stjórnin er að vinna í þessu og nú förum við í gegnum umsóknirnar og vöndum okkur við það,“ segir Eggert. „Við gerum það sem við getum til að tryggja að Leikfélag Reykjavíkur fái fyrirmyndar stjórnanda næstu árin.“