Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að það sé skynsamlegt að ráðast í sölu á hlut í Íslandsbanka ef það er tengt við það að nota ávinninginn í innviðafjárfestingar. Þannig væri hægt að losa um eignir ríkisins og nýta það í þörf verkefni. Vænt söluferli Íslandsbanka hefur þegar verið rætt á vettvangi ráðherranefnd um efnahagsmál, en í henni sitja auk Katrínar þau Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, og Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
Katrín segist leggja áherslu á að söluferlið verði að vera opið og gagnsætt. Það sé ekki ríkisins að ákveða hverjir kaupi ef til dæmis 25 prósent hlutur í bankanum verður seldur í gegnum skráningu á hlutabréfamarkað. „Það skiptir máli að það sé jafnræði á milli þeirra sem hafa áhuga.“
Íslenska ríkið á allt hlutafé í Íslandsbanka og nánast allt í Landsbankanum. Til stendur að selja hluta í Íslandsbanka, en lengi hefur verið reynt að fá erlenda bankastofnun, helst norræna, til að kaupa bankann í heild sinni. Enginn áhugi hefur reynst hjá þeim á því að kaupa íslenskan banka.
Lagt til að selja í gegnum markað
Í Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið, sem skilað var inn síðla árs 2018, var fjallað ítarlega um hvernig skuli standa að sölu á hlutafé í ríkisbönkunum, Landsbankanum og Íslandsbanka, og var þar horft til þess að nota skráðan markað til þess að endurskipuleggja eignarhald með þeim hætti, að dreift og traust eignarhald verði hluti af fjármálakerfinu til framtíðar.
Greint var frá því í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um efnahagsmál og viðskipti, í byrjun septembermánaðar í fyrra að í nýlegu gerðu minnisblaði Bankasýslu ríkisins, sem fer með hlutina í bönkunum fyrir hönd ríkissjóðs, væri lagt til að annað hvort ætti að selja að minnsta kosti 25 prósent hlut í Íslandsbanka í hlutafjárútboði og skrá þau bréf tvíhliða á markað, eða að selja allt að öllu hlutafé í bankanum með uppboðsleið þar sem önnur fjármálafyrirtæki eða sjóðir geti gert tilboð í hann.
Bankasýslan hefur ekki lagt það minnisblað enn fram opinberlega.
Bjarni vill hefja söluferlið á kjörtímabilinu
Fjármála- og efnahagsráðherra opnaði á málið á nýju í viðtali við Morgunblaðið í gær. Þar sagði hann að nú þegar að hagkerfið væri að kólna væri það kostur að losa um eignarhald ríkisins í bönkum og nota fjármunina sem fást út úr slíkri sölu í innviðafjárfestingar. Ólíklegt væri, miðað við verðmat markaðarins á fjármálafyrirtækjum að fullt bókfært verð, sem er yfir 170 milljarðar króna, fengist fyrir hlut í Íslandsbanka. Það er engu að síður rétt að mínu mati að losa um eignarhaldið í skrefum og 25 prósent hlutur í bankanum er tuga milljarða króna virði. Þá fjármuni ættum við að nýta til arðbærra fjárfestinga í innviðum.“
Í aukablaði Sjálfstæðisflokksins, sem ber nafnið „Á réttri leið“ og var dreift í aldreifingu með Morgunblaðinu í morgun, sagði Bjarni að sala á 25 til 50 prósent hlut í Íslandsbanka á næstu árum myndi opna á stór tækifæri til fjárfestinga. „Á undanförnum árum hefur mikið verið rætt um gjaldtöku til að fjármagna samgöngubætur og það er skiljanlegt, vegna þess að við þurfum að hraða framkvæmdum, en nærtækari leið er að losa um þessa verðmætu eign og afmarka gjaldtöku í framtíðinni við stærri framkvæmdir á borð við Sundabraut, Hvalfjarðargöng og aðra gangagerð. Núna er góður tími til að huga að átaki í þessum efnum, efnahagslífið er tilbúið fyrir opinberar framkvæmdir.“
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Bjarni talar á þessum nótum á kjörtímabilinu. Hann hefur þvert á móti ítrekað sagt að hann sé þeirrar skoðunar að hann vilji hefja söluferli á hlut ríkisins í ríkisbönkunum, Íslandsbanka og Landsbanka, á þessu kjörtímabili, en því lýkur væntanlega næsta vor. Bjarni vill þó halda eftir minnihlutaeign í Landsbankanum. Í september sagði Bjarni til að mynda að hann vonaðist til að söluferlið gæti hafist á næstu vikum.