Árið 2019 dvöldu 144 konur og 100 börn í Kvennaathvarfinu. Konur dvöldu í athvarfinu frá einum degi upp í 236 daga, að meðaltali í 30 daga. Börn dvöldu í athvarfinu í frá einum degi upp í 155 daga, að meðaltali í 39 daga. Að meðaltali dvöldu 23 íbúar í athvarfinu á dag, 12 konur og 11 börn.
Þetta kemur fram í tölum frá Kvennaathvarfinu fyrir árið 2019.
Að auki komu 294 konur í samtals 545 viðtöl án þess að til dvalar kæmi. Samtals komu því 438 konur í athvarfið í viðtöl eða dvöl á árinu. Til viðbótar hittu ráðgjafar athvarfsins 214 einstaklinga í viðtölum í Bjarkarhlíð, miðstöð fyrir þolendur ofbeldis.
27 prósent barnanna höfðu fengið aðstoð
Í tilkynningu frá Kvennaathvarfinu kemur fram að aldrei hafi fleiri konur nefnt ofbeldi gegn börnum sem ástæðu komu í athvarfið. Þá hafi komið fram í svörum kvennanna að alls búi 349 börn undir 18 ára að aldri á ofbeldisheimilunum sem þær koma af.
Einungis 27 prósent barnanna höfðu fengið einhverja aðstoð vegna þess ofbeldis sem barnið bjó við á heimili sínu en 44 prósent kvennanna sögðu að barnavernd hefði verið tilkynnt um ofbeldið. Alls voru 12 prósent kvennanna með líkamlega áverka við fyrstu komu í athvarfið, eða 23 prósent dvalarkvenna og 6 prósent kvenna í viðtölum, en rúmlega helmingur sögðu frá því að hafa einhvern tíma hlotið líkamlega áverka í sambandinu.
Yfir helmingur óttaðist um líf sitt
Þá sögðust 54 prósent hafa óttast um líf sitt í sambandinu, 42 prósent sögðu lögreglu hafa komið á vettvang ofbeldisins í eitt eða fleiri skipti og 15 prósent kært ofbeldið til lögreglu.
Meirihluti, eða 60 prósent, þeirra mála var enn í vinnslu en dómur hafði fallið í 5 prósent málanna, 16 prósent kærðra mála hafði verið verið felld niður, 5 prósent höfðu fengið nálgunarbann og 5 prósent neyðarhnapp.
Í heildina voru 67 prósent kvenna sem komu í Kvennaathvarfið á árinu íslenskar, eða 74 prósent þeirra sem komu í viðtöl og 51 prósent dvalarkvenna, og voru 74 prósent kvennanna af höfuðborgarsvæðinu. Konurnar voru á aldrinum 18 til 81 árs en börnin frá nokkurra daga gömlum upp í 16 ára.
Fram kemur hjá Kvennaathvarfinu að í 95 prósent tilvika hafi sá sem beitti ofbeldi verið karlmaður, 72 prósent af íslenskum uppruna og á aldrinum 18 til 83 ára.
Hér að neðan má sjá myndband sem Kvennaathvarfið lét gera árið 2016 en því er ætlað að vera fræðslumyndband fyrir börn um heimilisofbeldi.