Hausar eru farnir að fjúka vegna viðbragða við nýju kórónaveirunni
í Kína. Í dag var tilkynnt að yfir þúsund hefðu dáið vegna hennar. Langflestir
hafa látist í Hubei-héraði þar sem veiran uppgötvaðist í desember. Staðfest er
að yfir 42 þúsund hafa veikst. Borgin Wuhan er enn í sóttkví en spurningar hafa
vaknað um hvort þær aðgerðir séu að virka sem skyldi. Yfirvöld eru nú harðlega
gagnrýnd fyrir viðbrögð sín, ekki síst eftir að ungur læknir, sá sem átti þátt
í að uppgötva veiruna, sýktist af henni og lést.
Það er óhætt að segja að áhrif nýju kórónaveirunnar séu margvísleg og finnist víða um heim. Þau eru auðvitað fyrst og fremst heilsufarsleg en einnig efnahagsleg. Langmest eru þau enn sem komið er í Kína. Fasteignaviðskipti í landinu eru til að mynda aðeins brot af því sem þau voru í fyrra. Fólk hefur um annað að hugsa í augnablikinu en að skipta um húsnæði. Vélar margra verksmiðja hafa hljóðnað. Bændur eru hikandi við að fara með vörur sínar á markað. Skólar eru sumir hverjir lokaðir. Samfélagið er í biðstöðu.
Stjórnvöld hafa miklar áhyggjur af þessari stöðnun. Þau hafa hvatt fólk og fyrirtæki á svæðum þar sem veiran hefur haft takmörkuð áhrif að auka við framleiðslu sína. Reyna að vega upp á móti svæðum sem hafa stöðvað framleiðslu eða dregið verulega úr henni. Xi Jinping forseti hefur sagt að aðgerðir yfirvalda til að reyna að hefta útbreiðslu veirunnar hafi gengið of langt og ógni efnahagskerfi Kína. Þessi orð lét hann falla á lokuðum fundi.
Fleiri en Kínverjar eiga erfitt. Skemmtiferðaskipi með 2.257 manns innanborðs hefur verið bannað að koma að höfn í fjórum löndum. Skipið, Westdam, hefur nú verið í tvær vikur á sjó, án viðkomu í landi. Enginn treystir sér til að að taka við því af ótta við að farþegar og áhöfn kunni að vera sýkt af nýju kórónaveirunni.
Og sitt hvað undarlegt hefur komið upp. Tveir karlmenn frá Japan, sem voru fluttir frá Wuhan eftir að faraldurinn braust út, hafa nú verið greindir með veiruna. Mánuði fyrr fundust engin merki um hana í líkama þeirra. Þeir eru í hópi 28 sem greinst hafa í Japan. Auk þess eru 135 farþegar skemmtiferðaskips, sem er í sóttkví við bryggju í Yokohama, sýktir.
Á mánudag gaf kínverska landbúnaðarráðuneytið út yfirlýsingu og ráðlagði bændum í landinu að þvo sér vel um hendur, bera andlitsgrímur, en halda áfram að undirbúa næstu uppskeru. Ráðuneytið bað einnig fólk í þorpum á landsbyggðinni að hætta að setja upp vegatálma svo að hægt yrði að koma fræjum, skordýraeitri og öðru til bændanna.
Merkilegt þykir að ekkert tilfelli hafi greinst í Indónesíu, stærsta hagkerfi Suðaustur-Asíu. Kína er helsta viðskiptaland Indónesíu og því óttast stjórnvöld þar um efnahagsleg áhrif faraldursins.
Kínverska iðnaðarráðuneytið hvetur stjórnendur verksmiðja til að ræsa vélar sínar að nýju en margar þeirra hafa ekki hreyfst vikum saman. Að sögn ráðuneytisins mun faraldurinn ekki hafa áhrif á efnahag Kína til langframa en mikil til styttri tíma litið. Óttast er að til fjöldauppsagna komi en forsetinn Xi Jinping segist ætla að gera sitt til að koma í veg fyrir það.
Stjórnvöld í Suður-Kóreu hafa ráðlagt borgurum sínum að draga úr ferðalögum sínum til þeirra landa þar sem veiran hefur greinst, m.a. til Singapúr, Japan, Malasíu, Víetnam og Taílands. Þetta mun hafa áhrif á efnahag þessara landa. Viðbúið er að ferðamönnum til Singapúr fækki um 25-30% á þessu ári. Þar eru áhrif á ferðaþjónustuna þegar orðin mikil og ferðamálaráðherrann segir nauðsynlegt að undirbúa sig fyrir að þau verði sambærileg við það sem gerðist í SARS-faraldrinum árið 2003.
Kínverska sjónvarpsstöðin CCTV segir að tveimur yfirmönnum heilbrigðismála í Hubei-héraði hafi verið skipað að taka pokann sinn. Er það gert í kjölfar mikillar gagnrýni á viðbrögð yfirvalda við útbreiðslu faraldursins. Ekki eru allir sannfærðir um að þetta hafi verið rétt ákvörðun heldur að hún sé til marks um það að Xi Jinping forseti vilji miðstýra sem mestu. Uppsagnirnar séu táknrænar, verið sé að reka blóraböggla stjórnvalda.
Kínverjar urðu harmi slegnir og reiðir er fréttir um dauða hins 34 ára gamla læknis, Li Wenliang, bárust í síðustu viku. Hann hafði varað kollega sína í öðrum löndum við faraldri og var í kjölfarið skammaður af stjórnvöldum í heimalandinu.
103 dauðsföll á einum degi
Á einum sólarhring voru 108 dauðsföll staðfest í Kína, þar af 103 í Hubei-héraði. Ekki hafa fleiri dauðsföll orðið vegna veirusýkingarinnar á einum degi.
Hins vegar virðist vera að hægja á staðfestum tilfellum smitaðra, ef marka má opinberar tölur. Á einum sólarhring greindust 2.097 í Kína, 20% færri en daginn áður, og hafa ekki færri greinst frá 1. febrúar.
Ekki eru allir sammála um hvað þetta í raun og veru þýðir. Einn helsti faraldssérfræðingur heims, Gabriel Leung, segir í einkaviðtali viðbreska blaðið Guardian að veiran gæti smitað 60% jarðarbúa ef ekki takist að hefta útbreiðslu hennar enn frekar.
Varnaðarorð hans koma í kjölfar orða framkvæmdastjóra Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar sem sagði að fjöldi smitaðra, sem aldrei hefðu komið til Kína, gæti verið „toppurinn á ísjakanum“.
Stórum spurningum þarf að svara
Gabriel Leung, prófessor við Hong Kong-háskóla, sagði að nú væri brýnt að komast að því hversu stór ísjakinn væri og hvernig hann væri í laginu. Ef rétt reyndist, sem margir vísindamenn hafa haldið fram, að hver sá sem smitast smiti að meðaltali 2,5 til viðbótar, gæti það þýtt að um 60-80% jarðarbúa gætu að lokum smitast af veirunni.
„Sextíu prósent af íbúum jarðar er mjög há tala,“ segir Leung í ítarlegu viðtali við Guardian. Hann segir að jafnvel þótt að dánartíðnin sé aðeins um 1% þýði svo umfangsmikið smit að gríðarlega margir myndu deyja.
Leung er nú kominn til Genfar til fundar við sérfræðinga Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar og fleiri. Hann segir að þar verði að ræða hvort að þær aðgerðir sem gripið hefur verið til í Kína séu í raun og veru að virka. Ef þær hafa virkað ættu önnur lönd mögulega að taka þær upp.
Leung þekkir vel til faraldsfræðinnar. Hann var einn helsti sérfræðingurinn sem kom að greiningu SARS-faraldursins árin 2002-2003. Hann starfar náið með fjölda vísindamanna um heim allan, m.a. frá London.
Getur leynst svo lengi
Í janúar skrifaði hann grein í læknatímaritið Lancet þar sem hann varaði við því að faraldrar gætu blossað upp í öðrum borgum en Wuhan vegna þess að fólk sem smitast getur borið veiruna í allt að tvær vikur án þess að sýna nokkur einkenni.
Hann segir að kannski muni veiran ekki sýkja 60-80% jarðarbúa. Kannski munu faraldrar koma upp í bylgjum. Kannski mun veiran sjálf veikjast, hætta að vera jafn banvæn og nú. Enn sé margt á huldu.
Hvað aðgerðir kínverskra yfirvalda varðar, sem hafa sett borgir, hverfi og hús í sóttkví, veltir Leung því fyrir sér hvort að fleiri ríki ættu að grípa til sambærilegra aðgerða. Ef þær virka. „En hversu lengi er hægt að hafa skóla lokaða? Hversu lengi getur þú lokað heila borg af? Hversu lengi er hægt að halda fólki frá verslunarmiðstöðvum? Og þegar þessum takmörkunum verður aflétt, mun veiran blossa upp aftur? Þetta eru stóru spurningarnar.“
Er hægt að hefta útbreiðsluna?
Hafi aðgerðir í Kína hins vegar ekki virkað standi stjórnvöld frammi fyrir enn stærri spurningum. Er kannski ekki hægt að hefta útbreiðsluna? Sé það raunin verða stjórnvöld að sögn Leung að breyta um stefnu, reyna aðra nálgun: Milda áhrifin.
Ein helsta áskorunin er sú hversu lengi fólk getur verið smitað án þess að sýna þess nokkur merki. Og reynslan sýnir nú að þeir sem fóru frá Wuhan, m.a. til margra annarra landa, þurfa að láta rannsaka sig á nokkurra daga fresti. Veiran er lúmsk, hún getur leynst í líkamanum án þess að það takist að greina hana strax. Því er að sögn Leung nauðsynlegt að setja alla sem mögulega hafa komist í snertingu við hana í einangrun í fjórtán daga.
Í frétt BBC, sem skrifuð er af fréttaritara í Kína, segir að mörg hundruð manns hafi verið rekin, ekki aðeins tveir yfirmenn í Hubei-héraði. Og líklega muni uppsagnir halda áfram. Margir reyna að verja sig. Borgarstjóri Wuhan segist ekki hafa getað varað almenning við er hann frétti af veirunni því hann hafi ekki haft heimild til þess „að ofan“.
Fréttaritari BBC segir að mögulega eigi borgarstjórinn við forystumenn Kommúnistaflokksins, að með orðalaginu „að ofan“ eigi hann við stjórnvöld í Peking. Það kann að vera rétt en hann gæti einnig verið að reyna að hvítþvo sjálfan sig, framkvæmdastjóra borgarinnar þar sem veiran uppgötvaðist fyrst.
Á heimasíðu embættis landlæknis má finna leiðbeiningar fyrir Íslendinga varðandi kórónaveiruna.