Nýskráðum fólksbifreiðum fækkar á Íslandi á sama tíma og bílum knúnum áfram af vistvænum orkugjöfum fjölgar hlutfallslega mikið. Í fyrra voru um 13.700 bifreiðar nýskráðar hér á landi og fækkaði skráningum um 36 prósent milli ára. Þetta kemur fram hjá hagfræðideild Landsbankans.
Samkvæmt þeim kemur þessi mikli samdráttur kemur þó ekki sérstaklega á óvart þar sem nýskráningum hafði fjölgað verulega á síðustu árum, meðal annars í takt við fjölgun ferðamanna.
„Nýskráningum fækkar, en þær taka einnig breytingum í átt að auknu vægi vistvænni bíla. Rúmlega 30 prósent allra nýskráðra bifreiða í fyrra voru raf- eða tvinnbílar samanborið við 5 prósent árið 2014. Vinsældir bíla sem eru að hluta til, eða öllu leyti, knúnir áfram af orkugjöfum öðrum en bensíni eða dísel hafa þannig aukist verulega á síðustu árum.“
Jafnframt kemur fram að árið 2014 hafi um 480 raf- eða tvinnbílar verið nýskráðir hér á landi. Árið 2018 hefði fjöldinn tífaldast en þá hafi rúmlega 4.800 bílar verið af slíkri gerð nýskráðir. Í fyrra hafi fjöldinn dregist örlítið saman en þá hefðu nýskráðir verið 4.200 raf- og tvinnbílar.
Samkvæmt hagfræðideildinni benda fyrstu gögn varðandi árið í ár til þess að vistvænir bílar verði vinsælli en nokkru sinni fyrr. Af þeim 823 fólksbifreiðum sem voru nýskráðar í janúar voru raf- eða tvinnbílar 55 prósent, eða 451 talsins.
Stefnt að því að Ísland verði framarlega í notkun á endurnýjanlegum orkugjöfum
Aðgerðaráætlun um orkuskipti var samþykkt af Alþingi þann 31. maí árið 2017 en í henni var stefnt að því að auka hlutdeild innlendra endurnýjanlegra orkugjafa á kostnað jarðefnaeldneytis. Orkuskiptin eiga að leiða til orkusparnaðar, aukins orkuöryggis, gjaldeyrissparnaðar og minni losunar gróðurhúsalofttegunda.
„Að því skal stefnt að Ísland verði framarlega í notkun á endurnýjanlegum orkugjöfum á öllum sviðum. Heildarhlutdeild endurnýjanlegrar orku í orkubúskap landsins er um 70%. Hlutfall endurnýjanlegrar orku í samgöngum á landi er nú um 6%. Stefnt er að 10% hlutfalli endurnýjanlegrar orku í samgöngum á landi fyrir árið 2020 og 40% árið 2030. Endurnýjanleg orka sem notuð er á innlendum fiskiskipum er 0,1%. Stefnt er að 10% hlutfalli fyrir haftengda starfsemi árið 2030,“ segir í aðgerðaáætluninni.
1,5 milljarðar til orkuskipta
Þrír ráðherrar ríkisstjórnarinnar, þau Guðmundur Ingi Guðbrandsson, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson, kynntu síðasta sumar næstu skref varðandi orkuskipti í samgöngum á Íslandi.
Þá kom fram hjá ráðherrunum að hraðhleðslustöðvum við þjóðveginn yrði fjölgað verulega og blásið yrði til átaks með ferðaþjónustunni til að stuðla að orkuskiptum hjá bílaleigum.
Í tilkynningu frá ráðuneytunum þremur kom fram að verkefnin byggðu á tillögum starfshóps sem umhverfis- og auðlindaráðherra og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra skipuðu í byrjun síðasta árs og var falið að móta tillögur um aðgerðir til að hraða orkuskiptum hér á landi, í samræmi við aðgerðaáætlanir um loftslagsmál og orkuskipti.
Jafnframt var tilkynnt um ráðstöfun 450 milljóna króna vegna orkuskipta í samgöngum á árunum 2019 til 2020 en samkvæmt fjármálaáætlun er áætlað að verja 1,5 milljarði króna til orkuskipta á fimm ára tímabili.