Kengúrueyju í Suður-Ástralíu hefur verið líkt við Örkina
hans Nóa vegna hins einstaka lífríkis sem þar þrífst. En eftir mikla skógarelda
sem loguðu á eyjunni vikum saman er óttast hún verði aldrei söm. Rúmlega
þriðjungur hennar að minnsta kosti er brunninn. Dýr sem þar bjuggu eru á lista
stjórnvalda yfir þær tegundir sem eru í hvað mestri hættu eftir hamfaraeldana.
Nú er loksins farið að rigna og síðustu glæður elda ástralska sumarsins að
slokkna.
Ástralska landbúnaðarráðuneytið gaf út lista í gær. Á honum er að finna 113 dýrategundir sem þurfa á nauðsynlegri hjálp að halda eftir skógareldana. Á listanum eru þrettán tegundir fugla, 20 tegundir skriðdýra, 17 frosktegundir, yfir þrjátíu tegundir ferskvatnsfiska og nítján spendýrategundir.
Gróðureldar kvikna í Ástralíu á hverju ári og hafa gert í árþúsund. „Við erum eldálfan á hnettinum,“ segir Tom Griffiths, sagnfræði prófessor við Háskólann í Nýja Suður-Wales. „Þannig að það er ekki að undra að við höfum áhyggjur af eldum framtíðarinnar nú þegar spáð er heitara loftlagi.“
En eldarnir sem logað hafa í landinu frá því í byrjun september eru fordæmalausir. Á fimm mánuðum brunnu að minnsta kosti um 85 þúsund ferkílómetrar lands. Þrjátíu og þrír menn létust, þúsundir heimila eyðilögðust og kolsvartur og þykkur reykur lagðist yfir borgir og bæi. Áhrifin á hið einstaka lífríki Ástralíu eru enn ekki fyllilega ljós. Það eina sem hægt er að fullyrða er að þau eru mikil.
Þegar Nan Nicholson sá reyk rísa frá Terania Creek-dældinni, einu rakasta svæði Nýja Suður-Wales, áttaði hún sig þegar á því að eitthvað óvenjulegt var á seyði. Svæðið er hluti af Nightcap-þjóðgarðinum þar sem er að finna regnskóg sem rekja má allt aftur til hinnar fornu heimsálfu, Gondwana. Þjóðgarðurinn er því á heimsminjaskrá UNESCO.
Þann 8 nóvember í fyrra var engu líka en að þar væri hafið eldgos. „Þetta er eitt það hræðilegasta sem ég hef séð,“ segir Nicholson í samtali við Guardian. „Það var ótrúlegt að þetta gæti brunnið yfirleitt, hvað þá að sjálfur regnskógurinn, sá blautasti af öllu blautu, logaði.“
Nicholson hefur búið á svæðinu í yfir fjóra áratugi. Hún og eiginmaður hennar voru þau sem kröfðust þess að skógarhöggi í regnskóginum yrði hætt. Þau gripu til nokkuð róttækra aðgerða á áttunda áratugnum, settu meðal annars upp vegatálma. Það skilaði árangri og í kjölfarið var allur hinn forni regnskógur friðaður og gerður að þjóðgarði.
Allt frá tímum risaeðlanna
Leifar hins forna Gondwana-regnskógar eru á um 366 þúsund hekturum lands. Sum trén eru mörg hundruð ára gömul, jafnvel yfir þúsund ára, en skógurinn sjálfur er margra milljóna ára gamall. Hann var til á tímum risaeðlanna, svo forn er hann.
Nú eru engar risaeðlur þar en þeirra í stað hafa fjölmargar aðrar dýra- og plöntutegundir sest að í skóginum. Talið er að allt að helmingur skógarins hafi skemmst í eldunum síðustu mánuði og þar af leiðandi helmingur búsvæðis yfir hundrað tegunda planta og dýra sem þegar voru í hættu.
„Hér erum við að horfa á samfélag sem hefur verið til í 40-50 milljónir ára á ástralska meginlandinu og hefur í gegnum árþúsundin minnkað um 99%,“ segir Robert Kooyman, sérfræðingur í regnskógum. Hann hefur helgað starf sitt rannsóknum á Gondwana-skógunum. „Og nú höfum við brennd fimmtíu prósent eða meira af þessu eina prósenti sem eftir var.“
Hann segir að vissulega muni hluti skógarins ná sér að nýju. En aðrir hlutar hans ekki. Skógurinn muni breytast og halda áfram að minnka.
Skógar sem næra sálina
„Þessir skógar sem yfirleitt iða af lífi, eru grænir og vænir, næra sál okkar,“ segir Mark Graham, vistfræðingur hjá náttúruverndarráði Nýja Suður-Wales. „Þú stígur þangað inn, andar djúpt að þér og þú finnur frið.“
Þar sem þessir skógar eru yfirleitt rakir þá hafa þeir ekki brunnið hingað til. En þegar eldar loga allt umhverfis þá mánuðum saman og hitinn verður gríðarlegur þá breytist allt. Og þetta sumarið brunnu þessir skógar mögulega í fyrsta skipti.
Árið 2019 var heitasta og þurrasta ár Ástralíu frá því að mælingar hófust fyrir 120 árum.
„Við erum að fara inn í óvissu tíma,“ segir Richard Hobbs, vistfræðingur við háskólann í Perth. „Við höfum ekki fengið elda svona snemma [að sumri] fyrr og þeir hafa ekki áður farið yfir svo stórt svæði. Það kviknaði í vistkerfum sem hafa ekki brunnið áður í manna minnum svo við verðum bara að giska á hvernig þau bregðast við.“
Saga tegundar
Þau vistkerfi sem verst verða úti eru þau sem sjaldan eða aldrei hafa áður brunnið. Aðrir skógar hafa brunnið reglulega síðustu áratugi og hefur áferð þeirra og samsetning þar með breyst. Sum tré hafa alfarið hopað úr þeim. Tíðir eldar gera það að verkum að þau ná ekki að vaxa og dafna.
Kooyman hefur farið á vettvang, séð ástandið í Gondwana-fornskóginum með eigin augum eftir eldana. Hann segir að börkur trjánna hafi brunnið. Þau séu enn með lífsmarki en að endalok þeirra nálgist.
Einstök eikartré sem þar vaxa eru aðeins 250 talsins. Kooyman telur að tíu prósent þeirra séu dauð. Önnur muni ekki lifa lengi eftir hamfarirnar.
Hann bendir á að þetta sé aðeins saga einnar tegundar. Í fornu regnskógunum eru margar aðrar tegundir plantna og dýra sem nú eru í enn meiri útrýmingarhættu en áður.
Þegar vistkerfi verður fyrir áfalli eins og skógareldum raskast mikilvægt jafnvægi. Áhrifin verða meiri en á einn stað, ákveðið svæði. Stóru trén í skógunum eru til að mynda nauðsynleg fyrir dýralíf. Þau veita dýrum skjól og fæða þau með ávöxtum sínum og laufum. Vistkerfi eru samofin, ekki einangruð.
Aðrir skógar Ástralíu sem brunnu í eldunum síðustu mánuði eru vanir slíku álagi. Það á til dæmis við um skóga tröllatrjánna. Aðeins nokkrum vikum og jafnvel dögum eftir að eldur veður um þá má sjá lífið kvikna á ný. Rigningar á næstu mánuðum munu gæða þá enn meira lífi og gera þá græna. En stærri vandamál gætu verið handan við hornið.
„Já, sumar tegundir hafa aðlagast eldum en það þýðir ekki að þær muni þola mikla og tíða elda sem er einmitt það sem við búumst við á sumum svæðum í Ástralíu vegna loftslagsbreytinga,“ segir Euan Ritchie, vistfræðingur við Deakin-háskóla í Melbourne. „Ef það koma oftar stórir og heitir eldar þá mun jafnvel tegundum sem eru að vissu leyti eldþolnar verða ógnað.“
Tíminn einn mun leiða í ljós hvernig bati skóganna og
vistkerfanna í heild verður.
Hvar er gljáandi svarti kakadúinn?
Á Kengúrueyju krossa menn fingur og vona það besta. Meðal tegunda sem óttast er að hafi orðið fyrir miklum skaða er gljáandi, svarti kakadúinn. Fuglinn sá getur orðið allt að fimmtíu ára gamall. Hann parar sig fyrir lífstíð. Það hefur tekið náttúruverndarfólk og sjálfboðaliða aldarfjórðung að bjarga tegundinni frá útrýmingu. Árið 1995 voru aðeins 158 slíkir fuglar á lífi. Hægt og rólega tókst að fjölga þeim í um 400.
En nú er alls óvíst hversu margir þeirra lifa. Hluti svæðis sem kakadúarnir eru vanir að gera hreiður sín á brann. Hræ annarra fugla hafa fundist í brenndum jarðveginum, fugla sem oftast ná að forða sér þegar gróðureldar kvikna. En ekkert hræ af kakadúa hefur fundist.
„Við vorum að velta fyrir okkur hvar öll dýrin væru,“ segir Diana Berris sem starfar á eyjunni. „En svo áttuðum við okkur á því að þarna voru bara litlar hrúgur af beinum, eldarnir voru svo ákafir að beinin bara molnuðu niður í höndunum á okkur.“
Alls óvíst er hversu mörg dýr urðu eldunum í Ástralíu að bráð. Sumir vísindamenn hafa sagt að hálfur til einn milljarður þeirra; skriðdýr, spendýr, fuglar, fiskar og fleiri tegundir, hafi drepist.
Víst er þó talið að minnsta kosti 100 plöntur og dýr sem fyrir voru í viðkvæmri stöðu misstu heimkynni sín í eldunum. Í þessum hópi er hinn svarti, gljáandi kakadúi.
Hlustið á frumbyggjana
„Forfeður okkar yrðu reiðir, held ég, ef þeir vissu hvað hefði komið fyrir landið, fyrir dýrin okkar,“ segir Warren Foster, talsmaður Yuin-þjóðarinnar við Wallaga-vatn. Talið er að þúsundir helgra svæða frumbyggja Ástralíu hafi skemmst eða eyðilagst í hamfaraeldunum. Þessi svæði hafa verið heilög í þeirra huga kynslóð fram af kynslóð í þúsundir ára. „En þegar þau eru farin þá er ekki hægt að fá þau til baka.“
Frumbyggjaþjóðirnar hafa lengi kveikt elda til að hreinsa skóga. Slík iðja var svo litin hornauga og henni að mestu hætt. En sögur um elda fortíðar, þá sem náttúran hefur kveikt, lifa í sögum fólksins. „Þetta hefur aldrei verið eins og núna. Okkar fólk hefur aldrei kynnst eldum sem þessum. Við þurfum að halda landinu okkar heilbrigðu svo við getum verið heilbrigð. Við þurfum dýrin. Ef þetta er allt farið, andi okkar deyr þegar þau deyja.“
Foster segir að mögulega verði nú hlustað á frumbyggjana og hvernig þeir hafa brennt gróður. „Það er tímabært að spyrja okkur hvernig eigi að sjá um þetta land.“