Fjármálaeftirlitið hefur birt niðurstöðu athugunar sinnar á sundurliðun á kostnaði við tilboðsgerð hjá vátryggingafélögunum fjórum, Sjóvá, TM, VÍS og Verði. Athugunin hófst í júlí 2019 með því að eftirlitið kannaði hvernig félögin fjögur sundurliðuðu kostnað og afslætti vátrygginga við tilboðsgerð til einstaklinga vegna ökutækjatrygginga og eignatrygginga. Niðurstöður lágu fyrir í nóvember 2019.
Markmið athugunar Fjármálaeftirlitsins var að kanna hvort sundurliðun kostnaðar við tilboðsgerð væri í samræmi við reglur um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti vátryggingafélaga. Þær reglur segja til um að upplýsingar um vöru og þjónustu, þar með talin allan kostnað, skuli veittar á skýran og skiljanlegan hátt, áður en viðskipti fara fram og meðan á viðskiptasambandi stendur.
Eftirlitið skoðaði meðal annars hvernig tilboðsgerð fór fram hjá tryggingafélögunum, hvaða forsendur voru lagðar til grundvallar og hvernig uppsetning tilboða til viðskiptavina var. Í gagnsæistilkynningu sem Fjármálaeftirlitið birti í dag segir að í þeim tilgangi hafi verið óskað eftir afriti af verðskrám félaganna, upplýsingum um hvernig tilboðsgerð til viðskiptavina færi fram og afriti af þremur fyrstu tilboðum fyrstu tveggja ársfjórðunga ársins 2019.
Niðurstaða athugunar eftirlitsins var sú að öll tryggingafélögin fjögur framkvæmdu ofangreint á hátt sem var ekki í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti á vátryggingarmarkaði.
Viðskiptavinir gátu síður tekið upplýsta ákvörðun
Í tilfelli Sjóvar kom í ljós að í tilboðum félagsins til vátryggingartaka vegna ökutækjatrygginga var ekki að finna sundurliðun kostnaðar niður á ábyrgðartryggingu ökutækis, slysatryggingu ökumanns og eiganda og bílrúðutryggingu. „Eftirlitið taldi að framsetning kostnaðar með þessum hætti væri hvorki í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti á vátryggingarmarkaði né gæti talist framkvæmd sem miði að því að hafa hagsmuni vátryggingataka...að leiðarljósi.“ Viðskiptavinir ættu síður kost á að taka upplýsta ákvörðun um vátryggingar ef kostnaður vegna þeirra væri ekki sundurliðaður. í gagnsæistilkynningunni sem birt var í dag segir að Fjármálaeftirlitið hafi þv athugasemd við að Sjóvá birti ekki sundurliðun á kostnaði við ábyrgðartryggingu ökutækis, slysatryggingu ökumanns og eiganda og bílrúðutryggingu.“
Viðskiptavinir ættu síður kost á að taka upplýsta ákvörðun um vátryggingar ef kostnaður vegna þeirra er ekki sundurliðaður. Fjármálaeftirlitið gerði því athugasemd við að félagið birti ekki sundurliðun á kostnaði við ábyrgðartryggingu ökutækis og slysatryggingu ökumanns og eiganda.
Vantaði sundurliðun á afsláttum
Hjá VÍS var það sama uppi á teningnum. Athugun eftirlitsins leiddi í ljós að í tilboðum félagsins til vátryggingartaka vegna ökutækjatrygginga var ekki að finna sundurliðun kostnaðar niður á ábyrgðartryggingu ökutækis og slysatryggingu ökumanns og eiganda. Þar var heldur ekki að finna sundurliðun á afsláttum niður á fyrrnefndar tryggingar, bílrúðutryggingu og kaskótryggingu félagsins.
Eftirlitið taldi því að framsetning kostnaðar og afslátta með þessum hætti væri hvorki í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti á vátryggingarmarkaði né gæti talist framkvæmd sem miði að því að hafa hagsmuni vátryggingartaka að leiðarljósi.
Viðskiptavinir eiga síður kost á að taka upplýsta ákvörðun um vátryggingar ef kostnaður vegna þeirra er ekki sundurliðaður. Fjármálaeftirlitið gerði því athugasemd við að félagið birti ekki sundurliðun á kostnaði við ábyrgðartryggingu ökutækis og við að veittur afsláttur væri ekki sundurliðaður niður á einstaka tryggingar ökutækja.
Í athugun Fjármálaeftirlitsins á Verði kom í ljós að í tilboðum félagsins til vátryggingartaka vegna ökutækja- og eignatrygginga væri lokaverð gefið upp sem „Samtals með afslætti“ en þó væru engir sundurliðaðir afslættir niður á einstaka tryggingar. „Eftirlitið taldi að framsetning heildarverðs með þessum hætti væri hvorki í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti á vátryggingamarkaði né gæti talist framkvæmd sem miði að því að hafa hagsmuni vátryggingataka að leiðarljósi.“ Fjármálaeftirlitið gerði því athugasemd við að félagið birti lokaverð sem „Samtals með afslætti“ en sýndi samt sem áður enga sundurliðaða afslætti niður á einstaka tryggingar í tilboðsgerð ökutækja- og eignatrygginga.