Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir að það sé mikil einföldun hjá Rio Tinto, eiganda álversins í Straumsvík, að tengja stöðu mála í rekstri þess eingöngu við það raforkuverð sem það greiðir til Landsvirkjunar.
Vitað hafi verið í nokkurn tíma að þróun á mörkuðum fyrir ál og rekstrarvandi álversins gerði stöðu Rio Tinto á Íslandi erfiða. „Þess vegna höfum við ákveðið að setjast niður með þeim og skoða þeirra stöðu. En ég tel það mikla einföldun að tengja þessa stöðu eingöngu við raforkuverðið. Það eru miklu stærri áhrifavaldar henni tengdir. Til dæmis álverð á heimsmarkaði, verðþróun á þeirri vöru sem álverið framleiðir, hátt súrálsverð og það að missa út þriðjung af starfseminni í fyrra.“
Þar vísar Hörður í að slökkt var á einum af þremur kerskálum álversins í Straumsvík eftir að svokallaður ljósbogi myndaðist. Það orsakaði umtalsvert tekjutap.
Á forsíðu Morgunblaðsins í dag birtist frétt um að forsvarsmenn Rio Tinto hafi fundað með Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, vegna þess að þeir meti sem svo að raforkusamningurinn frá 2010 „þrengi svo að starfseminni að ekki verði við unað.“ Skömmu síðar birtist tilkynning á vef Rio Tinto á Íslandi að til greina komi að loka álverinu.
Ekkert byrjað að ræða um lægra verð
Gildandi raforkusamningur Landsvirkjunar og álversins í Straumsvík var gerður í júní 2010. Hann gildir til ársins 2036 og um er að ræða fyrsta samninginn sem Landsvirkjun gerði við álframleiðanda hérlendis þar sem að tenging við álverð var afnumin. Með því færðist markaðsáhættan af þróun á álmarkaði frá seljandanum yfir á kaupandann.
Í tilkynningunni Rio Tinto frá því í morgun segir að fyrirtækið vilji leita leiða til þess að bæta samkeppnisstöðu álversins, en að gert sé ráð fyrir því að rekstur þess verði áfram óarðbær til skemmri tíma sökum ósamkeppnishæfs orkuverðs og lágs verðs á áli í sögulegu samhengi.
Rio Tinto segist nú leita allra leiða til að gera álverið arðbært og samkeppnishæft á alþjóðamörkuðum, meðal annars með samtali við stjórnvöld og Landsvirkjun. Það samtal snýst um að reyna að lækka raforkuverð sem samið var um í nýjum samningum sem gerðir voru árið 2010.
Aðspurður hvort að til greina komi að lækka verðið, eða eftir atvikum gera aðrar breytingar á raforkusamningnum, segir Hörður að það sé ekki byrjað að fjalla um það. Það sé í gildi raforkusamningur og að óbreyttu gildi hann.