Atvinnuleysi á Íslandi hélt áfram að vaxa í janúarmánuði og var heilt yfir 4,8 prósent. Það hækkaði um 0,5 prósentustig milli mánaða og hefur ekki verið meira frá því í apríl 2012.
Að jafnaði voru 8.808 einstaklingar atvinnulausir í síðasta mánuði, eða 789 fleiri en í mánuðinum áður. Alls voru 44 prósent þeirra sem voru án atvinnu í janúar erlendir ríkisborgarar, en á undanförnum árum hafa nær öll þau tæplega 30 þúsund störf sem orðið hafa til á íslenskum vinnumarkaði verið mönnum með fólki sem flutt hefur hingað til lands.
Þetta kemur fram í nýjum tölum Vinnumálastofnunar um atvinnuleysi á Íslandi sem birtar voru í gær.
Suðurnesin skera sig úr
Atvinnuleysið er langmest á Suðurnesjum, eða níu prósent. Það hefur vaxið hratt þar undanfarið en það svæði verður fyrir mestum áhrifum vegna samdráttar í ferðaþjónustu, enda eini alþjóðaflugvöllur landsins staðsettur þar. Ferðamönnum sem heimsóttu Ísland fækkaði um 14 prósent í fyrra, eða um tæplega eina íslenska þjóð.
Tökum aðlögun út í gegnum atvinnuleysi
Sögulega hefur íslenska efnahagskerfið virkað þannig að íslenska krónan hefur gefið eftir þegar það harðnar á dalnum og verðbólga aukist samhliða.
Því er ekki að skipta lengur. Verðbólga á Íslandi er 1,7 prósent og hefur ekki verið minni frá því í september 2017. Hún er því langt undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans, sem er 2,5 prósent. Gengi krónunnar hefur auk þess haldist stöðugt í gegnum þær efnahagslegu áskoranir sem íslenska hagkerfið hefur staðið frammi fyrir undanfarið ár.
Þess í stað er aðlögun efnahagslífsins tekin út í gegnum atvinnuleysi, líkt og er vaninn í mörgum öðrum vestrænum markaðshagkerfum. Í nýjustu Peningamálum Seðlabanka Íslands sagði að búist sé við því að atvinnuleysið aukist fram eftir ári. Samandregið er þar komist að eftirfarandi niðurstöðu: „Horfur eru því á að slakinn í þjóðarbúinu vari lengur en áður var talið.“