Rauð viðvörun: Víðtækar lokanir á vegum. Rafmagns- og vatnsleysi og íbúar beðnir að spara rafmagn. Mannlausar götur, skólahaldi aflýst og tómar hillur verslana. Ofsaveðrið sem hóf að ganga yfir landið snemma í morgun, þar sem vindhraði fór í miklar hæðir og úrkoma sömuleiðis, hefur haft margvíslegar afleiðingar. Engin alvarleg slys hafa þó orðið á fólki en einhverjir vegfarendur þurftu að leita skjóls í fjöldahjálparmiðstöð á Vík.
Vindhraði mældist 71 metri á sekúndu í hviðu við Hafnarfjall um klukkan 10 í morgun. Það er með því mesta sem mælst hefur hér á landi. Mjög hvasst var í Vestmannaeyjum og fór meðalvindur upp í 45 m/s og í 58 m/s í hviðum.
En það var ekki aðeins vindurinn sem var óvenjulegur heldur líka úrkoman. Samkvæmt óyfirförnum frumniðurstöðum mæla Veðurstofunnar var úrkoman mest í Vestmannaeyjum, 68,7 mm. Mikill munur var á hæsta og lægsta hita á landinu í morgun. 6,6°C voru undir Hafnarfjalli á sama tíma og tæplega tuttugu stiga frost mældist í Köldukinn.
Veðurstofan, almannavarnir, Vegagerðin og lögregluembætti höfðu ítrekað varað við veðrinu og svo virðist sem almenningur hafi hlustað á þau varnaarorð. Veðurspáin gekk eftir og rauð viðvörun var í gildi á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi, Suðausturlandi og í Faxaflóa. Þetta er í annað sinn frá því að litakerfið var tekið upp sem Veðurstofan gefur út rauða viðvörun. Það gerðist í fyrsta sinn í óveðrinu í desember.
Ofsaveðrið nálgast landiðHér er áhugavert myndskeið sem sýnir lægðina nálgast landið. Myndskeiðið er samsett úr myndum frá Meteosat 11 gervitunglinu sem sendir myndir á 15 mínútna fresti. Myndirnar sýnir ferðalag lægðarinnar aðfaranótt 13. febrúar til kl. 9 í morgun. Myndin er svokölluð innrauð hitamynd sem þýðir að kaldir fletir eru ljósir og þeir hlýrri dökkir. Kalt efra borð skýja verður hvítt þar sem frostið er oft á tíðum nálægt 50 stigum í 8 til 9 km hæð. Sjónarspilið í þessum myndum er tilkomumikið og sýnir eina hlið af þeim krafti sem býr í náttúruöflunum.
Posted by Veðurstofa Íslands on Friday, February 14, 2020
Til frekari glöggvunar eru hér nokkrar skilgreiningar Veðurstofunnar:
Rauð viðvörun: Miklar líkur eru á veðri sem hefur mjög mikil samfélagsleg áhrif, eða slíkt veður er yfirstandandi. Einstaklega áköfum og hættulegum veðurskilyrðum er spáð. Búast má við miklum skemmdum og líkur á slysum eru miklar, ógn við líf og limi. Viðbúið er að samgöngur leggist með öllu af og aðgengi að innviðum/þjónustu verði skert.
Á Suðurlandi var í morgun varað við ofsaveðri og „jafnvel fárviðri“. En hver er munurinn á þessu tvennu?
Ofsaveður: Ofsaveður er skilgreining á vindhraða líkt og fram kemur í grein Trausta Jónssonar veðurfræðings. Ofsaveður er það kallað þegar vindhraðinn nær 28,5-32,6 m/s. Við svo mikinn vindhraða eru áhrifin þau að miklar skemmdir verða á mannvirkjum og útivera á bersvæðum verður hættuleg. Vindurinn rýfur hjarn og lyftir möl og grjóti.
Fárviðri: Í fárviðri fer meðalhraði vindhviða yfir 32,7 metra á sekúndu. Allt lauslegt fýkur, þar á meðal möl og jafnvel stórir steinar, segir á vef Veðurstofu Íslands. „Kyrrstæðir bílar geta oltið eða fokið. Heil þök tekur af húsum. Skyggni oftast takmarkað, jafnvel í þurru veðri.“
Fengum þessa mynd senda frá @Hjörvar Ingi Haraldsson núna rétt í þessu en myndin fangar augnablikið þegar við vorum að...
Posted by Landsnet on Friday, February 14, 2020
Afleiðingar veðursins hafa í stórum dráttum verið eftirfarandi:
Snjóflóð féll á veginn við Laufás rétt fyrir hádegið og er vegurinn lokaður. Hætta getur verið á fleiri flóðum á Grenivíkurvegi og eru íbúar beðnir að vera ekki á ferðinni. Ekki verður átt við mokstur fyrr en veðri slotar og talið er öruggt, segir í tilkynningu frá lögreglunni á Norðurlandi.
Töluvert hefur verið um rafmagnstruflanir. Landsnet er með stöðuga vöktun á flutningskerfi sínu og greinir jafnóðum frá bilunum og viðgerðum á samfélagsmiðlum. Rarik gefur einnig út samantekt á truflunum í dreifikerfi sínu reglulega og klukkan 11 í morgun var staðan eftirfarandi:
Vesturland: Norðurhluti Hvalfjarðar og Svínadalur rafmagnslaus. Mikil selta er á svæðinu.
Suðurland: Truflanir á tólf stöðum. Rafmagnslaust á bæjum undir Eyjafjöllum og í Vík og í Mýrdal. Rafmagn skammtað í Vík og íbúar beðnir um að fara sparlega með það. Rafmagnslaust í uppsveitum Árnessýslu og við Þingvallavatn frá Miðfelli að Mjóanesi. Þá er rafmagnslaust í Holtum, Landsveit og upp með Heklubæjum. Einnig er rafmagnslaust í Landeyjum og 27 staurar brotnir. Línan milli Kirkjubæjarklausturs og Víkur er úti og þar með er rafmagnslaust í Álftaveri, Meðallandi og hluta Skaftártungna.
Núna þegar klukkan er að ganga níu er staðan í flutningskerfinu þannig að við erum með nokkrar línur úti - ...
Posted by Landsnet on Friday, February 14, 2020
Aðstæður á Suðurlandi voru farnar að skána fyrir klukkan ellefu í morgun og vinnuflokkar voru farnir af stað í Árnessýslu. „Þessu til viðbótar er eldingaveður að koma yfir landið og það getur bæði valdið truflunum, en einnig getur þetta tafið fyrir truflanaleit og viðgerðum.“
Austurland: Sveitarfélagið Hornafjörður rafmagnslaust, þ.m.t. Höfn, vegna truflunar í flutningskerfinu. Einnig er bilun í dreifikerfinu. Eldingar hafa verið á svæðinu.
Heitavatnslaust varð í Rangárþingi, þar með talið Hellu og á Hvolsvelli og í Ásahreppi vegna rafmagnsleysis hjá Rarik.
Þjóðvegir frá höfuðborginni voru allir lokaðir um tíma í morgun en hafa svo verið opnaðir fyrir umferð einn af öðrum.
Björgunarsveitir og lögregla hafa sinnt fjölmörgum verkefnum í morgun. Í Vestmannaeyjum, þar sem vindhraði fór mest upp í 44 m/s, bárust viðbragðsaðilum 25 tilkynningar, m.a. vegna foktjóns. Þá sökk bátur í höfninni.
Þá flæddi sjór á land í Reykjanesbæ og Garði eins og sjá má á myndskeiði Víkurfrétta hér að neðan.
Sjávarflóð við bakhlið Hafnargötu í Keflavík. Djúpur sjór á svæðinu.
Posted by Víkurfréttir Ehf. on Friday, February 14, 2020
Þó að veðrið hafi gengið nokkuð niður víðast hvar ber enn að hafa gætur á veðurspám. Sú nýjasta er þessi:
Snýst í sunnan hvassviðri með deginum, fyrst syðst, en áfram rok og ofankoma um landið norðanvert fram á kvöld. Lægir talsvert á landinu í kvöld og nótt og styttir upp.
Gengur í austan og norðaustan 13-20 m/s á morgun, en 20-25 um tíma syðst á landinu. Rigning eða slydda um landið sunnan- og austanvert, en snjókoma á Vestfjörðum. Þurrt á Norður- og Vesturlandi framan af degi, en dálítil úrkoma þar seinnipartinn. Hiti 0 til 7 stig, hlýjast syðst.
Fjöldi eldinga hafa mælst handan skilanna og á Suðausturlandi eru líkur á að það verði vart við eldingar þegar að skilin ganga yfir. Veðurstofan varar einnig við eldingaveðri á Suðurlandi í dag og á morgun.